Innlent

Heiðmerkurkæru NÍ vísað frá

MYND/Daníel

Úrskurðarnefnd um skipulags- og byggingarmál hefur vísað frá kæru Náttúruverndarsamtaka Íslands vegna þeirra ákvörðunar skipulagsráðs Reykjavíkur að veita framkvæmdaleyfi til lagningar vatnsveitu frá Vatnsendakrikum um Heiðmörk innan lögsögu Reykjavíkurborgar.

Náttúruverndarsamtökin kröfðust þess að ákvörðunin yrði felld úr gildi og jafnframt að framkvæmdir samkvæmt leyfinu yrðu stöðvaðar þar til úrskurðarnefndin hefði kveðið upp úrskurð sinn í málinu. Var til þess vísað af hálfu samtakanna að fram hefði komið að framkvæmdin væri háð breytingu á aðalskipulagi sem ekki hefði enn verið gerð.

Úrskurðarnefndin vísaði kærunni hins vegar frá á þeim grundvelli að samtökin hefðu ekki sýnt fram á að þau ættu neinna hagsmuna að gæta sem verið gætu grundvöllur aðildar að málinu.

Enn fremur er bent á í úrskurði nefndarinnar að undantekning sé gerð frá þeirri meginreglu 8. greinar skipulags- og byggingarlaga að þeir einir geti skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Sú undantekning eigi bara við um framkvæmdir sem falli undir lög um mat á umhverfisáhrifum. Þessi undantekningarregla eigi hins vegar ekki við í þessu máli enda liggi fyrir niðurstaða Skipulagsstofnunar um að framkvæmdirnar í Heiðmörk skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum.

Þá fellst úrskurðarnefndin ekki á að aðild Náttúruverndarsamtakanna að málinu geti átt sér stoð í Árósasamningnum. Sá samningur hefði ekki hlotið fullgildingu hér á landi og ekki hefðu verið gerðar neinar þær breytingar á íslenskum lögum sem miðuðu að því að innleiða ákvæði hans að því leyti sem skiptir máli í þessu samhengi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×