Innlent

Mengun vegna brennisteinsvetnis ekki yfir heilsuverndarmörkum

MYND/GVA

Brennisteinsvetnismengun sem borist hefur frá Hellisheiðarvirkjun til borgarinnar hefur ekki farið yfir heilsuverndarmörk Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar frá því að virkjunin var formlega gangsett eftir því mælingar umhverfissviðs borgarinnar og Umhverfisstofnunar sýna.

Fram kemur í tilkynningu frá Umhverfisstofnun að íbúar í austari hverfum Reykjavíkur hafi í vetur fundið hveralykt þegar vindur blási frá virkjuninni en þá lykt megi rekja til brennisteinsvetnis sem komi upp úr borholunum á Hellisheiði.

Samkvæmt mælingum í sameiginlegri loftmælistöð Umhverfissviðs Reykjavíkur og Umhverfisstofnunar á gatnamótum Grensásvegar og Miklubrautar hefur mesti styrkur brennisteinsvetnis mælst 59 míkrógrömm í rúmmetra á sólarhring. Engin umhverfismörk eru í íslenskum reglugerðum um brennisteinsvetni en hins vegar hefur Alþjóðaheilbrigðisstofnunin gefið út viðmiðunarmörk sem eru 150 míkrógrömm í rúmmetra á sólarhring.

Tekið er fram í tilkynningu Umhverfisstofnunar að ekki sé talið að alvarleg heilsufarsáhrif komi fram fyrr en að styrkur brennisteinsvetnis er orðinn hundrað sinnum hærri en þessi viðmiðun.

Bent er á að fólk sé misnæmt fyrir lykt af brennisteinsvetni. Í Kaliforníu séu umhverfismörk sett við klukkustundarmeðaltalið 42 míkrógrömm í rúmmetra en þessi mörk miðast við óþægindi vegna lyktar. Við þessi mörk geta um 80 prósent almennings skynjað lyktina en að öðru leyti er talið að brennisteinsvetni sé skaðlaust heilsu fólks við þennan styrk.

Árið 2006 fór styrkur brennisteinsvetnis á Grensásvegi samtals 36 skipti yfir umhverfismörk Kaliforníu en oftast stóð þetta yfir í 1-2 klukkustundir en lengst stóð slíkt yfir í hálfan sólarhring samfellt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×