Innlent

Sendiráð Íslands í Mapútó lék á reiðiskjálfi

Frá Mapútó.
Frá Mapútó. MYND/Sigríður B. Tómasdóttir

Sendiráð Íslands og skrifstofa Þróunarsamvinnustofnun Íslands léku á reiðiskjálfi í marga klukkutíma vegna sprenginga í Mapútó, höfuðborginni í Mósambik í gær. Fjöldi íbúa hefur flúið heimili sín í dag af ótta við frekari sprengingar. Vopnabúr hersins sprakk í loft upp í einu úthverfa borgarinnar í gær og 80 fórust. Hundruð íbúa liggja slasaðir á sjúkrahúsum. eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá Þróunarsamvinnustofnun Íslands.

„Hér í sendiráði Íslands og skrifstofu Þróunarsamvinnustofnunar lék allt á reiðiskjálfi í marga klukkutíma," segir Jóhann Pálsson umdæmisstjóri ÞSSÍ í Mapútó.

Vopnageymslan er í hverfi um tíu kílómetra frá miðborg Mapútó en engu að síður brotnuðu víða rúður í nágrenni sendiráðsins, að sögn Jóhanns. Jóhann segir að starfsmenn Þróunarsamvinnustofnunar hafi sloppið að mestu við eignatjón en einn bílstjóranna hafi þó misst þakið af húsinu sínu.

Þá er haft eftir Jóhanni í tilkynningunni að sprengingarnar hafi ekki nein áhrif á þau verkefni sem stofnunin standi á bak við að því undanskildu að heimili munaðarlausra skemmdist töluvert og ósprungnar sprengjur liggja á leikvellinum við heimilið. Hefur skjólstæðingum heimilisins verið komið á öruggari stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×