Innlent

Hátt í 15 börn á leið í heiminn vegna réttarbóta

Upp undir fimmtán börn eru á leið í heiminn eftir að samkynhneigð pör öðluðust rétt til að fara í tæknifrjóvgun á Íslandi um mitt síðasta ár.

Það var í lok júní á síðasta ári sem samkynhneigð pör öðluðust rétt til að fara í tæknifrjóvgun hér á Íslandi. Áður höfðu samkynhneigð pör leitað til útlanda, ekki síst til Danmerkur. Guðmundur Arason, læknir hjá Art Medica, segir að þegar þessi réttarbót kom til hafi verið uppsafnaður hópur af fólki sem vildi komast í meðferð. Á þriðja tug samkynhneigðra kvenna hefur nú þegar farið í tæknifrjóvgun og gengið vel, segir Guðmundur.

Guðmundur segir flestar kvennanna hafa farið í tæknisæðingu og gengið mjög vel. Nokkrar hafi farið í glasafrjógvun og það megi segja að það hafi fengist mjög góður árangur þar sem allar hafi orðið ófrískar sem hafi farið þá leið. Guðmundur segir aðspurður að á bilinu 10-15 börn séu á leið í heiminn vegna þessa.

Á sama tíma fengu samkynhneigðir rétt til ættleiðingar barna. Sá galli er á gjöf Njarðar að enn hefur ekkert land fundist sem er tilbúið til að taka á móti ættleiðingarumsóknum samkynhneigðra.

Sænsk stjórnvöld hafa sömuleiðis leyft ættleiðingar samkynhneigðra en þar er sama staða uppi. Samkvæmt upplýsingum frá félaginu Íslensk ættleiðing hafa því engar umsóknir borist félaginu eftir júní síðastliðinn enda hafa fulltrúar félagsins fundað með Samtökunum ´78 og þeim er því fullkunnugt um stöðuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×