Innlent

Lausamunir og þakefni á fleygiferð

Þakefni fauk í heilu lagi af fjórum raðhúsum á Akureyri upp úr miðnætti. Það hafnaði inni í garði við næsta hús og á bílastæði, þar sem að minnsta kosti einn bíll skemmdist.

Björgunarsveitarmönnum tókst með snarræði að koma í veg fyrir að samskonar þakklæðning fyki af fjórum raðhúsum til viðbótar. Húsin eru hátt í 30 ára gömul og hafa þökin staðist öll veður þar til í nótt. Talið er að tjónið nemi mörgum milljónum króna.

Þá fuku lausamunir og voru björgunarsveitarmenn lögreglu til aðstoðar fram á nótt. Björgunarsveit var kölluð út til að hefta fok í nýbyggingum í Innri Njarðvík, eða suðurbænum, eins og farið er að kalla svæðið.

Vinnupallar fuku um koll í Hafnarfirði og litlu munaði að stórtjón yrði þegar stór steypumót fóru að gefa sig undan vindinum á áttundu hæð í turninum, sem verið er að byggja við Smáralind. Vaskur stafsmaður verktakans klifraði upp í háan byggingakrana, þrátt fyrir storminn, en með aðstoð hans var hægt að hemja mótin svo að þau féllu ekki til jarðar.

Ekki er vitað til að neinn hafi meiðst í óveðrinu en það gekk víðast hvar niður í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×