Innlent

Óvenju góð aflabrögð um land allt

Mikil og góð aflabrögð eru nú nánast allt í kringum landið. Skipstjórar á Suðurnesjum segjast aldrei hafa lent í öðru eins fiskeríi og þorskurinn sé vænni en sést hafi í manna minnum. Þeir segja skilyrði í hafinu gefa tilefni til miklu meiri veiða og hvetja fiskifræðinga til að koma út á sjó og sjá þetta með eigin augum. Það er sannarlega stemmning í sjávarbyggðum þessa dagana. Ógrynni virðist vera af þorski í hafinu og sjómenn segja að öll veiðarfæri séu að skila góðum afla. Hjá Fiskistofu segir Þórhallur Ottesen að mikil aflabrögð séu nánast um allt land, ekki bara í þorski. Ýsuveiði er einnig mjög góð. Í Grindavík var línuskipið Ágúst GK að landa hundrað tonnum í dag eftir fjögurra daga útilegu, mest þorski, og Kristín var að koma með tæp 90 tonn að landi. Þar er vandinn sá að þorskkvótinn er að klárast. Minni bátar hafa einnig verið í mokfiskeríi. Netabáturinn Skátinn, með fjórum mönnum um borð, kom með sex tonn úr síðustu veiðiferð eftir daginn, þar áður ellefu tonn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×