Innlent

Umhverfismál, hagstjórn og nýsköpun hjá Íslandshreyfingunni

Umhverfismál, bætt hagstjórn, betri kjör aldraðra og öryrkja og nýsköpun og jöfnuður eru þau mál sem nýr stjórnmálaflokkur, Íslandshreyfingin - lifandi land, leggur áherslu á. Flokkurinn kynnti stefnu sína í dag í Þjóðmenningarhúsinu.

„Ég held að þetta sé í fyrsta sinn þar sem kynnt er stefnuskrá stjórnmálaflokks þar sem áherslan er lögð á að hafa gaman af lífinu," sagði Ómar Ragnarsson, einn aðstandenda framboðsins, í upphafi fundarins. Hann sagði kosningarnar í vor snúast um landið sjálft og að Íslandshreyfingin hefði algjöra sérstöðu því hún væri ein flokka græn í gegn.

Margrét Sverrisdóttir, sem einnig kemur að framboðinu, sagði að boðið yrði fram í öllum kjördæmum. Ekki væri búið að skipa á framboðslistan en þegar það yrði gert yrði horft til jafnréttis kynjanna og allra stétta.

Ómar sagði enn fremur að hreyfingin ætlaði að halda umhverfismálum í umræðunni alveg fram að kosningum og tryggja að ekki yrði mynduð hrein stóriðjustjórn eftir kosningar. Koma þyrfti í veg fyrir að núverandi stjórnarflokkar kipptu inn Frjálslynda flokknum í ríkisstjórnina.

Hann sagði enn fremur að hreyfingin vildi staldra við í stóriðjumálum þar til niðurstöður lægju fyrir í djúpborunarverkefnum svo ekki þyrfti að fórna náttúruperlum eins og Ómar orðaði það.

Þá benti Margrét á að flokkurinn vildi auka samkeppni í landbúnaði og styrkja lífræna framleiðslu. Í sjávarútvegi legði flokkurinn mesta áherslu á að smábátar fengju aðgang að krókaveiðum.

Fjölmenni var í Þjóðmenningarhúsinu þar sem framboðið var kynnt en þar var einnig kynnt merki þess. Það er rauður, grænn og blár hringur sem á að tákna sjálfbæra þróun í landinu. Bráðabirgðastjórn framboðsins er skipuð sjö mönnum, þar á meðal Ómari sem er formaður, Margréti sem er varaformaður og Jakobi Frímanni Magnússyni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×