Fleiri fréttir

Akureyrarsjónvarp um land allt

Sjónvarpsstöðin N4, sem sent hefur út frá Akureyri undanfarin ár, hyggst hefja útsendingar á landsvísu á næstu vikum. Stjórnarformaður N4 segir sjónvarpsstöðina þá einu utan höfuðborgarsvæðisins sem haldi úti reglulegum fréttum á virkum dögum.

Eldur í bensínstöð

Rétt fyrir sex í kvöld kviknaði í þaki söluskála Olís á Reyðarfirði. Slökkvilið Fjarðarbyggðar kom fljótt á staðinn og slökkti eldinn. Iðnaðarmenn voru að klæða þak hússins þegar eldurinn blossaði upp. Litlar skemmdir urðu vegna eldsins en viðbúið er að einhverjar skemmdir hafi orðið vegna reyks og vatns.

Sýknaður af ákæru um utanvegaakstur í gullleit

Hæstiréttur sneri við dómi Héraðsdóms Austurlands og sýknaði mann af ákæru um að hafa ekið utan vegar á Skeiðarársandi og valdið skemmdum. Í málinu var deilt um hvort sú leið sem maðurinn ók umrætt sinn teldist vegur í skilningi laga.

Sýknaði mann af þjófnaði vegna vankanta á skýrslutöku

Hæstiréttur sýknaði í dag karlmann af ákæru um að hafa brotist inn í Skíðaskálann í Hveradölum í félagi við konu og haft þaðan á brott peninga, hitakönnu og matvæli. Maðurinn neitaði sakargiftum fyrir dómi og bar við minnisleysi.

Eins árs fangelsi fyrir árás með stálkylfu

Rúmlega fertugur karlmaður var í Hæstarétti í dag dæmdur til eins árs fangelsisvistar fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með stálkylfu. Manninum hafði orðið sundurorða við fórnarlambið.

Lést í bílslysi við Kotströnd í gær

Konan sem lést í bílslysi á Suðurlandsvegi við Kotströnd í gær hét Lísa Skaftadóttir til heimilis að Engjavegi 32 á Selfossi. Lísa var 43 ára, fædd 17. janúar 1964. Hún lætur eftir sig eiginmann, fimm börn og eitt barnabarn.

Heimskautaréttur verður kenndur við HA

Undirritaður var samningur um að hefja meistaranám í heimskautarétti (polar law) við Félagsvísinda- og lagadeild Háskólans á Akureyri í dag. Dr. Guðmundur Alfreðsson, prófessor, mun veita náminu forstöðu.

Enn snjóflóðahætta á Vestfjörðum

Vegagerðin varar við hvassviðri á Snæfellsnesi og á Holtavörðuheiði en segir aðalleiðir á á Suður- og Vesturlandi víðast auðar. Þá varar Vegagerðin við snjóflóðahættu í Óshlíð og eins milli Ísafjarðar og Súðavíkur.

Háskólinn í Reykjavík á heimsmælikvarða

Aðstaða nemenda og starfsfólks Háskólans í Reykjavík verður á heimsmælikvarða þegar nýbyggingar skólans í Vatnsmýri verða teknar í notkun. Í dag undirritaði Háskólinn samning við Eignarhaldsfélagið Fasteign um byggingar skólans. Þær munu rísa við Hlíðarfót ofan við Nauthólsvík og verða samtals 34 þúsund fermetrar.

Hyggjast styrkja sjóvarnagarða í Vesturbænum

Framkvæmdasvið Reykjavíkurborgar undirbýr að styrkja sjóvarnagarða við Ánanaust og Eiðisgranda í vesturbæ Reykjavíkur vegna þess að sjór hefur þar ítrekað gengið á land.

Ökufantur lofaði bót og betrun

Hálffertugur karlmaður var stöðvaður á Reykjanesbraut í gær eftir að hafa ekið langt yfir leyfilegum hámarkshraða. Í samtali við lögreglumenn sagðist maðurinn skammast sín.Maðurinn hefur margsinnis verið tekinn fyrir hraðakstur. En hann lofaði bót og betrun varðandi aksturslag.

Vill vinnuverndarráð í stað stjórnar Vinnueftirlitsins

Ríkisendurskoðun vill að stjórn Vinnueftirlits ríkisins verði lögð niður og í stað hennar komi sérstakt vinnuverndarráð sem skipað verði fulltrúum aðila vinnumarkaðarins. Í úttekt Ríkisendurskoðunar á Vinnueftirlitinu segir að stjórn Vinnueftirlitsins hafi ekki náð að laga sig að breyttu hlutverki sínu sem ráðgefandi stjórn og hafi það torveldað samskipti stofnunar og félagsmálaráðuneytis.

Óvissuferð með júmbó þotu

Í fyrramálið fara 550 starfsmenn Eimskips og dótturfélaga þess í óvissuferð með breiðþotu Atlanta flugfélagsins. Mikil spenna ríkir meðal starfsfólksins um hver áfangastaðurinn verður segir í tilkynningu frá félaginu. Flogið verður á Boeing 747-300 vél Atlanta. En flugfélagið er eitt af dótturfyrirtækjum félagsins.

Sinfónía Norðurlands gerir tímamótasamning

Nýr samningur á milli Akureyrarbæjar og Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands var undirritaður í dag. Samningurinn tekur til starfsemi hljómsveitarinnar næstu þrjú árin. Með honum er tryggð áframhaldandi starfsemi hljómsveitarinnar. Framlög hækka um samtals 10,5 m.kr. á samningstímanum.

Umhverfismál, hagstjórn og nýsköpun hjá Íslandshreyfingunni

Umhverfismál, bætt hagstjórn, betri kjör aldraðra og öryrkja og nýsköpun og jöfnuður eru þau mál sem nýr stjórnmálaflokkur, Íslandshreyfingin - lifandi land leggur áherslu á. Flokkurinn kynnti stefnu sína í dag í Þjóðmenningarhúsinu

Lögregluhundur fann fíkniefni í bíl

Karlmaður um tvítugt var handtekinn í austuhluta Reykjavíkur í gærkvöldi. Lögregla fann tvö grömm af ætluðu amfetamíni í fórum hans. Í framhaldinu leituðu var leitað í bíl mannsins. Lögregluhundur fann þá um 30 grömm af sama efni sem falið hafði verið í bifreiðinni. Á heimili mannsins fundust einnig tæki og áhöld til neyslu og dreifingar á fíkniefnum.

Afmælistónleikar kvennakórs Kópavogs

Kvennakór Kópavogs heldur afmælistónleika í Salnum í Kópavogi sunnudaginn 25. mars. Gestir á tónleikunum eru Regína Ósk og Englakórinn, undir stjórn Natalíu Chow Hewlett. Í byrjun apríl leggst kórinn síðan í víking til Búdapest og tekur þar þátt í kórakeppni sem ber heitið Musica Mundi. Stofnandi kórsins er Natalia Chow Hewlett og undirleikari frá upphafi er Julian Hewlett.

Ógrynni af þorski

Ógrynni af þorski eru í Faxaflóanum og verða sjómenn á línubátum að leggja mun færri bjóð í sjó en venjulega, til þess að fá ekki of mikinn afla í einu. Annarsvegar hætta þeir ekki á að ofhlaða bátana og hinsvegar vilja þeir ekki ofbjóða mörkuðunum, því þá lækkar fiskverðið. Þá þykir þorskurinn vænni en verið hefur um árabil.

Tekur vel í að Faxaflóahafnir leggji Sundabraut

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra tekur vel í þá hugmynd að Faxaflóahafnir standi að því að leggja Sundabrautina. Segir hann að breyting á lagaumhverfi opni á þann möguleika að einkaaðilar taki að sér einkaframkvæmdir eins og þarna verði þá um að ræða.

Flest banaslys á sunnudegi

Flest banaslys í umferðinni á árinu 2006 urðu á sunnudegi, eða átta talsins. En alls létust 31 í 28 slysum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu umferðarstofu um slys í umferðinni á síðasta ári. Miðað við niðurstöður skýrslunnar er áhættusamast að vera í umferðinni milli klukkan þrjú og sex á föstudegi. Þá voru karlmenn 2/3 þeirra sem létust.

Lögregla rannsakar Strawberries

Forstjóri Útlendingastofnunar segist enga skýringu hafa á því hvers vegna konur séu fengnar frá Rúmeníu til starfa á kampavínsklúbbnum Strawberries. Auðveldara sé að fá fólk frá ríkjum innan EES-svæðisins en utan. Meti Vinnumálastofnun svo að þær þurfi atvinnuleyfi þurfa þær einnig dvalarleyfi.

Þjóðminjasafnið safnar upplýsingum um skipasmíðar

Þjóðminjasafn Íslands hyggst á næstunni safna upplýsingum um skipasmíðar vegna þess að greinin á nú mjög undir högg að sækja hér á landi. Eftir því sem segir í tilkynningu frá safninu hefur það sent út spurningaskrá um skipasmíðar til tréskipasmiða og járnskipasmiða um allt land.

Vatnselgur í vesturbænum

Töluvert af sjó flæddi yfir varnargarða við Ánanaust um klukkan níu í kvöld. Mikill vatnselgur var á hringtorginu fyrir framan JL-Húsið svokallaða. Menn frá Reykjavíkurborg komu síðan á staðinn og sinntu hreinsunarstörfum. Vegagerðin hafði varað við því að niðurföll myndu hugsanlega ekki anna vatnselgnum þar sem enn gæti verið frosið í þeim.

Háskólinn á Akureyri opnar nýja heimasíðu

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra opnaði nýja heimasíðu Háskólans á Akureyri miðvikudaginn 21. mars. Heimasíðan er forrituð af hugbúnaðarfyrirtækinu Stefnu á Akureyri í vefumsjónarkerfið Moya. Útlitshönnuður síðunnar er Þormóður Aðalbjarnarson hjá auglýsingastofunni Stíl á Akureyri.

Kona lést í árekstri

Kona á fimmtugsaldri lést þegar jeppi og vörubíll skullu saman rétt austan við Hveragerði um hádegisbil í dag. Þetta er annað banaslysið í umferðinni í ár.

Sláandi að flytja konur inn til að spjalla

Talskona Stígamóta segir það hafa slegið sig að eigendur Kampavínsklúbbsins Strawberries séu að flytja inn hátt í 30 konur frá Rúmeníu til að ræða við viðskiptavini afsíðis. Sérkennilegt sé að flytja inn konur frá öðrum löndum til þess eins að spjalla.

Jón Steinar segist engar siðareglur hafa brotið

Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttardómari, segir af og frá að hann hafi brotið siðareglur Lögmannafélags Íslands. Jón Steinar vann lögmannsstörf fyrir Ingibjörgu Pálmadóttur, sambýliskonu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, og tók svo að sér málarekstur fyrir Jón Gerald Sullenberger gegn Baugi.

Brasilíufangi fær 3 ára dóm

Tuttugu og þriggja ára Íslendingur, Hlynur Smári Sigurðsson, var í fyrradag dæmdur í þriggja ára fangelsi í Brasilíu fyrir tilraun til kókaínsmygls. Hann hefur setið í haldi og beðið dóms í tíu mánuði. Dómurinn þykir vægur en fyrirfram átti hann sjálfur von á allt að tuttugu ára fangelsi.

Aldrei fór ég suður

Aldrei fór ég suður - rokkhátíð alþýðunnar - verður haldin í fjórða sinn á Ísafirði um páskahelgina. Helstu breytingar frá hátíðarhöldunum í fyrra eru að þær að atriðum hefur fjölgað um nær helming og munu nú spanna tvo daga.

Enginn munur á tá og tönn

Ríkið þyrfti að rúmlega fjórfalda fjárframlög til tannheilsu barna til að verja sama hlutfalli til málaflokksins og fyrir hálfum öðrum áratug. Þetta myndi þýða útgjaldaaukningu uppá meira en einn og hálfan milljarð á ári. Dósent í barnatannlækningum segir að engin rök séu fyrir því, í velferðarsamfélagi, að gera greinarmun á tá og tönn.

Boðnar 20 milljónir króna í flýtibónus fyrir Ísafjarðarleið

Uppbygging nýs vegar um Tröllatunguheiði, á næstu tveimur árum, styttir leiðina milli Reykjavíkur og Ísafjarðar um fjörutíu kílómetra. Takist að opna veginn ári fyrr, eða fyrir 1. september á næsta ári, fær verktakinn tuttugu milljónir króna í flýtibónus.

Barnabætur hækka um fjórðung

Barnabætur greiðast nú í fyrsta sinn með 16 og 17 ára gömlum börnum. Áður féllu bæturnar niður þegar barnið náði 16 ára aldri. Á þessu ári verður einnig dregið úr tekjuskerðingu barnabóta og er áætlað að útgjöld ríkissjóðs til barnafólks hækki af þessum sökum um 1,7 milljarða króna.

Garðabær er draumasveitarfélag Íslands

Garðabær er besta sveitarfélag Íslands samkvæmt könnun tímaritsins Vísbendingar. Fast á hæla þess kemur Seltjarnarnes, en Reykjavík er í 15. sæti, með fimm stig. Efstu sveitarfélögin tvö skera sig nokkuð úr í stigagjöf og eru þau einu sem hljóta fyrstu einkunn. Garðabær með 8,3 stig og Seltjarnarnes með 7,9 stig.

Útafakstur á Álftanesvegi

Rétt fyrir klukkan þrjú keyrði fólksbíll út af Álftanesvegi. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var bifreiðin að koma af Garðarholtsafleggjaranum sem er um 300 metra frá Bessastöðum. Orsakir þess að ökumaðurinn keyrði beint yfir veginn og út af hinum megin eru ókunnar. Hann var einn í bílnum og var fluttur í sjúkrabíl á slysadeild.

Hermann og Jóhannes Karl ekki með gegn Spánverjum

Tvö stór skörð voru í dag höggvin í íslenska landsliðshópinn fyrir leikinn gegn Spánverjum í undankeppni EM á miðvikudaginn í næstu viku. Þeir Hermann Hreiðarsson og Jóhannes Karl Guðjónsson geta ekki tekið þátt í leiknum.

Hreinn vill vita hvað Jón Steinar hefur að fela

Hreinn Loftsson, stjórnarformaður Baugs, spyr í yfirlýsingu sem hann hefur sent frá sér hvað Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttardómari, hefur að fela í Baugsmálinu. Skeytin halda áfram að ganga á milli þátttakenda í Baugsmálinu.

Skýrsla um umferðarslys kynnt

Skýrsla Umferðarstofu um umferðarslys á árinu 2006 verður kynnt á fundi í fyrramálið. Fundurinn verður haldinn í flugskýli Landhelgisgæslunnar í Nauthólsvík. Talsverð fjölgun varð bæði á banaslysum og slysum almennt í umferðinni á síðasta ári. Farið verður yfir niðurstöður skýrslunnar og úrræði sem hægt er að grípa til.

Banaslys í Ölfusi - Suðurlandsvegur opinn á ný

Kona á fimmtugsaldri lést þegar jeppi og vörubíll rákust saman á rétt austanvið Hveragerði í hádeginu. Konan var ein í bíl sínum og var hún úrskurðuð látin á vettvangi. Bílarnir komu hvor úr sinni áttinni. Flytja þurfti ökumann vörubílsins á slysadeild en meiðsl hans eru ekki talin alvarleg.

Óveður á heiðum norðanlands

Óveður er á Holtavörðuheið og á Öxnadalsheið, þar er ekkert ferðaveður, að sögn vegagerðarinnar. Á Suðurlandi eru víða hálkublettir. Á Vesturlandi er hálka á Bröttubrekku. Varað er við snjóflóðahættu á Kirkjubólshlíð í Skutulsfirði og á Óshlíð. Vegagerðin biður vegfarendur um að vera ekki að ferðast þar að nauðsynjalausu.

Framhaldsskólarnir eru „svartur blettur“ á menntakerfinu

Framhaldsskólarnir eru „svartur blettur“ á menntakerfi okkar og það yrði jákvæð þróun að færa rekstur þeirra til sveitarfélaganna. Þetta segir Stefán Jón Hafstein borgarfulltrúi Samfylkingarinnar. Hann veltir upp tillögu um að lengja skólaskyldualdur í 18 ár. Enn fremur fagnar hann ákvörðun sjálfstæðismanna um tilraunaverkefni með rekstur framhaldsskóla.

Sjá næstu 50 fréttir