Innlent

Ógrynni af þorski

Ógrynni af þorski eru í Faxaflóanum og verða sjómenn á línubátum að leggja mun færri bjóð í sjó en venjulega, til þess að fá ekki of mikinn afla í einu.

Annarsvegar hætta þeir ekki á að ofhlaða bátana og hinsvegar vilja þeir ekki ofbjóða mörkuðunum, því þá lækkar fiskverðið. Þá þykir þorskurinn vænni en verið hefur um árabil. Sjómenn segjast undarast að Hafrannsóknastofnun rannsaki ekki málið, því vel kunni að vera að breytingar í lífríkinu breyti hegðunarmynstri þorsksins. Stofnmælingar á hefðbundnum stöðum þurfi því ekki að gefa rétta heildarmynd af ástandi stofnsins.

Þar eiga þeir við svonefnt togararall, þar sem samskonar togarar toga á sömu slóðum á sama tíma ár eftir ár, til að fá samanburð. Því var að ljúka í ár, en niðurstöður liggja ekki fyrir. Þónokkrir bátar á Faxaflóasvæðinu og reyndar í Breiðafirði líka, eru að verða búnir með kvóta sína eða alveg búnir, og tekur þá við langt sumarleyfi fram til fyrsta september þar til nýtt fiskveiðiár hefst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×