Innlent

Enginn munur á tá og tönn

Ríkið þyrfti að rúmlega fjórfalda fjárframlög til tannheilsu barna til að verja sama hlutfalli til málaflokksins og fyrir hálfum öðrum áratug. Þetta myndi þýða útgjaldaaukningu uppá meira en einn og hálfan milljarð á ári. Dósent í barnatannlækningum segir að engin rök séu fyrir því, í velferðarsamfélagi, að gera greinarmun á tá og tönn.

Tannheilsu barna hefur hrakað verulega á síðustu árum og er nú helmingi verri en hjá sænskum börnum. Þetta sýnir ný viðamikil rannsókn. Hún sýnir líka að sterkt samhengi er á milli tekna foreldra og fjölda tannskemmda. Sigurður Rúnar Sæmundsson, dósent í tannlæknadeild, telur þetta endurspeglun á því breytta hugarfari að velta ábyrgð á tannheilsu barna yfir á hvern og einn - og þá skipta tekjur máli.

Rannsóknir Sigurðar Rúnars sýna ástæðuna fyrir ört hrakandi tannheilsu barna að hans mati. Þannig var kostnaður ríkisins í tannvernd barna yfir 0.2 % af landsframleiðslu árið 1990 en hefur hríðlækkað síðan. Samkvæmt nýjustu tölum var þetta hlutfall meira en fjórum sinnum lægra eða um 0.05 %. Ef þetta hlutfall væri það sama í dag og árið 1990 væri ríkið ekki að verja rúmum 500 milljónum á ári í barnatannlækningar - heldur tveimur komma tveimur milljörðum.

Dósentinn telur engin rök fyrir því að kerfið hér á landi eigi að vera annað en hjá grannþjóðunum þar sem samfélagsleg ábyrgð er tekin á tönnum sem og öðrum líkamspörtum barna. Ef tá brotnar í barni tekur heilbigðiskerfið við - ef tönn brotnar eða skemmist þá er ábyrgðinni velt á einstaklinginn. Enginn munur eigi að vera á tá og tönn í barni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×