Innlent

Brasilíufangi fær 3 ára dóm

Tuttugu og þriggja ára Íslendingur, Hlynur Smári Sigurðsson, var í fyrradag dæmdur í þriggja ára fangelsi í Brasilíu fyrir tilraun til kókaínsmygls. Hann hefur setið í haldi og beðið dóms í tíu mánuði. Dómurinn þykir vægur en fyrirfram átti hann sjálfur von á allt að tuttugu ára fangelsi.

Hlynur Smári hefur setið í varðhaldsfangelsi Porto Seguro í Brasílíu frá því hann var handtekinn snemma sumars á liðnu ári með tvö kílí af ætluðu kókaíni í farteskinu. Aðstæður í Brasilískum fangelsum eru afar slæmar og fordæmdar af mannréttindasamtökum. Greindi Hlynur frá því í viðtali í fyrra að hann myndi vart tóra marga mánuði við þær aðstæður sem hann bjó við. Svo troðið var í klefa hans að menn skiptust á um að sofa. Fangauppreisnir hafa verið tíðar í brasilískum fangelsum og er þeim raunar gjarnan stjórnað af glæpaklíkum. Hlynur átti von á 15 til 20 ára fangelsi enda hafði hann lítil fjárráð til að kosta almennilega vörn. En miðað við það hefur Hlynur sloppið vel. Samkvæmt upplýsingum í utanríkisráðuneytinu féll dómur í fyrradag og hljómaði hann uppá refsivist í þrjú ár. Er það talið vel sloppið miðað við málavexti en hefð mun vera fyrir því að harðar sé tekið á vestrænum útlendingum en heimamönnum. Samkvæmt upplýsingum utanríkisráðuneytisins verður Hlynur fluttur í afplánunarfangelsi þar sem aðstæður eru mun betri en í varðhaldsfangelsum. Ekki hefur borist enn nein beiðni um að hann verði fluttur í afplánun í íslenskt fangelsi en slíka beiðni þarf að samþykkja í báðum löndum.

Annar maður, 29 ára sem handtekinn var í Brasilíu síðasta sumar með umtalsvert af hassi bíður enn eftir sínum dómi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×