Fleiri fréttir

Íbúinn kveikti sjálfur í

Íbúi í íbúðinni sem eyðilagðist í eldi í fjölbýlishúsi í Lómasölum í Kópavogi í fyrrinótt kveikti sjálfur í. Hann gaf sig fram við lögregluna og játaði verknaðinn án skýringa. Faðir mannsins er skráður eigandi íbúðarinnar. Líklegt má telja að maðurinn verði ákærður bæði fyrir eignaspjöll og að hafa stofnað lífi nágranna í hættu.

Tæplega nítjánþúsund manns hafa mótmælt

Rúmlega átjánþúsund og sjöhundruð manns hafa undirritað mótmæli gegn ritstjórnarstefnu DV í dag á Deiglunni. Um tíma komust færri að síðunni en vildu og hrundi hún vegna of mikils álags. Síðan verður opin áfram á morgun.

Mikill verðmunur á fiski

Mikill verðmunur er á fiski milli verslana samkvæmt kverðkönnun sem verðlagseftirlit ASÍ gerði þriðjudaginn 10. janúar síðast liðinn. Mestur er munurinn 111% á heilli hausaðri rauðsprettu sem kostaði frá 375 krónum upp í 790 krónur. Minnstur var munurinn 22% á reyktum ýsuflökum þar sem lægsta verð var 980 krónur en það hæsta var 1198 krónur. Kannað var verð á 27 ferskum fisktegundum í fiskbúðum og stórmörkuðum sem hafa fiskborð í verslunum sínum. Verðið var oftast lægst í FiskbúðinniÁrbjörgu, Hringbraut og í Fiskbúðinni okkar við Smiðjuveg en oftast dýrast í Fiskbúðinni Vör, Höfðabakka.

Ríkissaksóknari fær málið á morgun

Mál Jónasar Garðarssonar, formanns Sjómannafélags Reykjavíkur, vegna sjóslyssins á Viðeyjarsundi, verður sent til Ríkissaksóknara á morgun. Þar verður tekin ákvörðun um hvort ákært verði í málinu.

Síðbúnar þrettándabrennur í kvöld

Þrettándanum var fagnað með þremur brennum á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöld, en ekki var hægt að kveikja í þeim á föstudaginn var vegna veðurs. Seltirningar kveiktu í brennu á Valhúsahæð og lögðu fjölmargir leið sína þangað þrátt fyrir nokkurn kulda. Safnast var saman við Mýrarhúsaskóla og þaðan gengið fylktu liði undir lúðrablæstri upp á hæðina.

Nýr samningur hjá Strætó

Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar og Strætó bs. hafa skrifað undir nýjan kjarasamning fyrir starfsfólk Strætós. Fram kemur á heimasíðu Strætós að nýi samningurinn sé í öllum meginatriðum sambærilegur og áþekkur samningi Reykjavíkurborgar og starfsmannafélagsins, en aðilar hafa þó litið til sérstöðu starfseminnar og aðlagað samninginn að því.

Kærir líklega ekki

Sverri Þór Sverrissyni, eða Sveppa eins og hann er betur þekktur, þykir ólíklegt að hann kæri þann sem gaf honum glóðarauga um helgina. Árásarmaðurinn hefur beðið hann afsökunar.

Stjórnin kölluð saman

Karlmaður á sextugsaldri svipti sig lífi í morgun, eftir að DV birti mynd af honum á forsíðu og bendlaði hann við kynferðislegt ofbeldi gegn ungum piltum. Ásakanirnar gegn honum hafa ekki verið sannaðar og bróðir mannsins segir að DV hafi nánast rekið hann í dauðann. Formaður Blaðamannafélagsins hyggst kalla saman stjórn félagsins af þessu tilefni.

Skipan fjölmiðlanefndar í uppnámi

Menntamálaráðherra getur ekki skipað fulltrúa allra þingflokka í nýja fjölmiðlanefnd, sem á að semja drög að fjölmiðlalögum. Stjórnarandstaðan á Alþingi hefur sent ráðherra bréf, þar sem þess er krafist að málefni Ríkisútvarpsins verði rædd í nefndinni, en að öðrum kosti hyggst stjórnarandstaðan ekki tilnefna fulltrúa í hana.

Ók á ljósastaur

Ökumaður missti stjórn á bifreið sinni og ók á ljósastaur á Hafnavegi, nálægt aðalhliðinu hjá Varnarliðinu á Miðnesheiði snemma kvölds. Lítil sem engin meiðsl urðu á fólki.

Kveikt í þrettándabrennum í kvöld

Þrettándanum var fagnað með þremur brennum á höfuðborgarsvæðinu í kvöld, en ekki var hægt að kveikja í þeim á föstudaginn var vegna veðurs.

Smygluðu milljónum sígarettna

Þrír norskir skipstjórar og einn íslenskur hafa játað smygl á nærri tveimur milljónum sígarettna og fleiri þúsundum lítra af áfengi til Noregs. Smyglvarninginn keyptu skipstjórarnir, sem starfa á tveimur norskum fragtskipum, í Hollandi og Þýskalandi.

Fékk heillaskeyti frá forsætisráðherra

300 þúsundasti landsmaðurinn kom í heiminn í gær en það var drengur sem á ættir sínar að rekja til Reykjanesbæjar. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra og Hallgrímur Snorrason hagstofustjóri heimsóttu foreldrana og drenginn á fæðingardeild Landsspítalans klukkan eitt í dag og afhentu þeim heillaóskaskeyti í beinni útsendingu á NFS.

Úthlutað fyrir lok umsóknarfrests

Umhverfisráðherra hefur úthlutað Náttúrufræðistofnun 6,6 milljónum króna úr veiðikortasjóði þrátt fyrir að umsóknafrestur um styrki úr sjóðnum sé ekki runninn út.

300 milljóna borhola skilar engu

Tvær borholur Reykjanesvirkjunar virðast ekki ætla að skila neinni orku en sú dýrari kostaði yfir þrjúhundruð milljónir króna. Engu að síður stefnir í að virkjunin verði gangsett á fullu afli þann 1. maí næstkomandi.

Álagningarprósentan lækkar

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti í dag að lækka álagningarprósentu fasteignaskatts á íbúðahúsnæði um 20 prósent, eða úr 0,335 prósentum í 0,27 prósent. Lóðarleiga og vatnsgjald lækka einnig. Þetta verður þó ekki til að álögur lækka heldur hækka þær ekki meira en sem nemur verðlagsþróun.

Starfslokasamningur stöðvaði kjarasamning

Starfslokasamningur forstjóra FL-group varð til þess að Félag íslenskra atvinnuflugmanna sleit samningaviðræðum við Icelandair um að lækka áhafnakostnað vegna leiguflugs. Flugmönnum þótti í ljósi kringumstæðna ekki við hæfi að halda áfram viðræðum.

Nýr framkvæmdastjóri ráðinn áður en sá fyrri var rekinn

Framkvæmdastjórn Öryrkjabandalagsins gekk frá ráðningu nýs framkvæmdastjóra í síðustu viku - áður en Arnþóri Helgasyni var sagt upp störfum í gær. Arnþór var varaður við að tjá sig um málið við fjölmiðla og hótað með því að slíkt hefði neikvæð áhrif á starfslokasamning hans.

Ker vill selja Esso

Ker ætlar að selja Olíufélagið hf. Helstu ástæður þessa eru að sögn Ólafs Ólafssonar, stjórnarformanns Olíufélagsins, að efnahagsástandið sé hagstætt og margir hafi getu til að kaupa félagið, en ekki síður að eigendur Kers hafi hug á að auka fjárfestingar sínar erlendis.

Græddi 25 milljónir á sólarhring

Bjarni Ármannsson, forstjóri Íslandsbanka, keypti í gær hlutabréf í bankanum fyrir tæpan milljarð króna. Bjarni keypti bréfin í gær á genginu 18,6 en nú síðdegis var skráð gengi þeirra 19,1. Það þýðir að bara á þessum eina skammti hefur Bjarni hagnast um 25 milljónir króna á einum sólarhring.

Gestkvæmt hjá nýbura

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra og Hallgrímur Snorrason hagstofustjóri voru ekki einu ráðamennirnir sem heimsóttu son Erlu Maríu Andrésdóttur og Haraldar Arnarsonar sem varð 300 þúsundasti landsmaðurinn í dag. Það gerði líka Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ - heimabæ drengsins, og hann kom færandi gjafir.

Ók á 132 kílómetra hraða

Tveir voru stöðvaðir fyrir of hraðan akstur í umdæmi lögreglunnar í Reykjanesbæ í morgun. Sá sem hraðar ók var á 132 kílómetra hraða þar sem er 90 kílómetra hámarkshraði en hinn á 116 kílómetra hraða, einnig á vegi þar sem má hraðast aka á 90 kílómetra hraða.

Svipti sig lífi eftir umfjöllun DV

Karlmaður á sextugsaldri svipti sig lífi í morgun, eftir að DV birti mynd af honum á forsíðu og bendlaði hann við kynferðislegt ofbeldi gegn ungum piltum. Ásakanirnar gegn honum hafa ekki verið sannaðar og bróðir mannsins segir að DV hafi nánast rekið hann í dauðann. Nánar verður sagt frá þessu í fréttum NFS klukkan hálf sjö.

Átján umferðaróhöpp í dag

Fjórtán umferðaróhöpp og eitt umferðarslys hafa verið tilkynnt til lögreglunnar í Reykjavík frá því á hádegi í dag og alls átján frá því í morgun. Meiðslin í eina umferðarslysinu voru minniháttar en annars hefur þetta verið meiðslalaust.

Bjarni eykur hlut sinn

Bjarni Ármannsson, forstjóri Íslandsbanka, hefur keypt 50 milljón hluti í Íslandsbanka. Verð hlutabréfanna er 930 milljónir króna. Hlutur Bjarna í félaginu er nú um 0,93%.

Framleiða snjó á fullu

Starfsmenn skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli hafa unnið að því hörðum höndum í dag að undirbúa opnun svæðisins á morgun. Snjóframleiðsluvélar hafa verið í notkun með hléum frá því um helgina og blása nú allar úr sér snjó.

Herjólfur sigldi á í höfninni

Vestmannaeyjaferjan Herjólfur sigldi á landgönguranann í Þorlákshöfn þegar hún kom að landi eftir siglingu frá Vestmannaeyjum í dag. Raninn skemmdust nokkuð en litlar sem engar skemmdir urðu á skipinu.

Handtekinn eftir bruna í Lómasölum

Eigandi íbúðarinnar við Lómasali í Kópavogi, þar sem eldur kom upp í gær, hefur verið handtekinn grunaður um að hafa sett eld að íbúðinni.

Framleiðslumet á Dalvík

Landvinnsla Samherja á Dalvík framleiddi meiri sjávarafurðir á síðasta ári en nokkru sinni fyrr á þeim sex árum sem liðin eru síðan Samherji yfirtók starfsemina. Um 10.600 tonn voru unnin í landvinnslunni í fyrra og er það níu prósenta aukning frá árinu áður þegar framleiðslan nam 9.600 tonnum.

Vilja fjármagna Sundabraut með öðrum

Hafnarstjórn Faxaflóahafna vill hefja viðræður við ríkið um að taka þátt í fjármögnun Sundabrautar og stækkun Hvalfjarðarganga. Stjórnin hefur falið Árna Þór Sigurðssyni, formanni hennar, og Gísla Gíslasyni hafnarstjóra að óska eftir viðræðum við stjórnvöld.

Ákvörðun um matsmenn frestað

Héraðsdómur Reykjavíkur frestaði nú síðdegis ákvörðun um hvort hlutlausir matsmenn verði kallaðir til í Baugsmálinu. Sigurður Tómas Magnússon, settur ríkissaksóknari, óskaði eftir að hlutlausir sérfræðingar yrðu fengnir til að leggja mat á gögnin sem lögð hafa verið fram.

Þrjár brennur á höfuðborgarsvæðinu klukkan sex

Kveikt verður í þremur þrettándabrennum á höfuðborgarsvæðinu klukkan sex í dag, en eins og kunnugt er þurfti að fresta öllum brennum á svæðinu á föstudaginn var vegna veðurs. Kveikt verður í brennum á Valhúsahæð á Seltjarnarnesi, á bökkunum við Gestshús á Álftanesi og við Reynisvatn á móts við Sæmundarsel.

Tveir viðurkenna fíkniefnasölu

Lögreglan á Ísafirði hefur sleppt tveimur mönnum úr haldi sem grunaðir eru um hasssölu. Mennirnir voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald síðasta föstudag sem átti að renna út síðdegis í dag en málið telst nú upplýst. Öðrum manninum var sleppt í gærkvöldi en hinum í morgun. Þeir hafa játað að dreifa kannabisefnum á norðanverðum Vestfjörðum.

Vatnsleysustrandarhreppur verður Sveitarfélagið Vogar

Félagsmálaráðuneytið hefur staðfest ákvörðun hreppsnefndar Vatnsleysustrandarhrepps um breytingu á nafni sveitarfélagsins í Sveitarfélagið Vogar. Þetta kemur fram á heimasíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Framsóknarmenn heimsækja starfsfólk

Starfsmenn fjölda fyrirtækja, stofnana og samtaka á höfuðborgarsvæðinu mega eiga von á heimsókn þingmanna Framsóknarflokksins í vikunni. Tilgangur heimsóknanna er að kynna sér starfsemi fyrirtækjanna og heyra skoðanir stjórnenda og starfsfólks á stjórnmálalífinu.

Höllin farin á hausinn

Félagið, sem á og rekur veislu- og ráðstefnuhúsið Höllina í Vestmannaeyjum,er gjaldþrota og nemur þrotið að minnstakosti hundrað milljónum króna.

Foreldrum 300 þúsundasta Íslendingsins afhent heillaóskaskeyti

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra og Hallgrímur Snorrason hagstofustjóri heimsóttu 300 þúsundasta Íslendinginn, dreng sem á ættir sínar að rekja til Reykjanesbæjar, og foreldra hans á fæðingardeild Landsspítala - Háskólasjúkrahúss klukkan eitt í dag og afhentu þeim heillaóskaskeyti í beinni útsendingu á NFS.

Lætur kanna réttarstöðu sína

Formaður Öryrkjabandalagsins segir það hafa legið fyrir frá því hann tók við starfinu að skipulagsbreytingar væru fyrirhugaðar innan bandalagsins. Samkvæmt heimildum NFS ætlar framkvæmdastjórinn sem sagt var upp í gær, að ræða stöðu sína við lögfræðing.

Segir loðnustofninn jafnvel hruninn

Áhöfnin á hafrannsóknaskipinu Ána Friðrikssyni finnur enn enga loðnu, þrátt fyrir ítarlega leit, og loðnuskipin, sem tóku þátt í henni, eru löngu hætt og farin í land.

Esso til sölu

Stjórn Kers hf í forystu Ólafs Ólafssonar hefur ákveðið að selja allt hlutabréf sitt í Olíufélaginu ehf. Var þetta tilkynnt á fundi með starfsmönnum í morgun. Olíufélagið ehf. er lang stærsta olíufélagið hér á landi og hefur hátt í helming markaðarins á móti Olís og Skeljungi.

Skora á bæjarstjórn að hækka laun

VG á Akureyri fagna kjarabótum ófaglærðra starfsmanna á leikskólum í Reykjavík og skora á stjórnendur Akureyrarbæjar að semja um mannsæmandi laun við leikskólakennara og leiðbeinendur.

Nám í kínverskum fræðum hefst í lok janúar

Nám í kínverskum fræðum hefst hjá Símennt Háskólans á Akureyri í lok janúar. Námið er nýlunda hér á landi en stefnt er að því að bjóða upp á B.A. nám í Austur-Asíufræðum en námið er samstarfsverkefni Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands.

Farþegum um Keflavíkurflugvöll fjölgaði um 11% á síðasta ári

Farþegum um Flugstöð Leifs Eiríkssonar fjölgaði um 11% á síðasta ári. Það eru um 800 fleiri farþegar en árið 2004. Þá fjölgaði einnig farþegum sem minnilenda hér á landi á leið yfir Norður-Atlantshafið um 13%. Þessi fjölgun er í samræmi við farþegaspá sem breskt fyrirtæki gerði í upphafi ársins 2005. Sú spá gerir ráð fyrir að farþegafjöldi muni fara í 3,2 milljónir árið 2015. Flugstöðin verður stækkuð umtalsvert í nokkrum áföngum. Stækkunin er þegar hafin og gert er ráð fyrir að henni ljúki árið 2007.

Saka stjórnendur um launasukk

Flugmenn Icelandair hafa slitið samningaviðræðum við félagið um tilslakanir varðandi leiguflug félgagsins í útlöndum, vegna launasukks stjórnenda, eins og heimildarmaður úr röðum flugmanna orðaði það við NFS.

Sjá næstu 50 fréttir