Innlent

Lætur kanna réttarstöðu sína

Arnþór Helgason
Arnþór Helgason Hari

Formaður Öryrkjabandalagsins segir það hafa legið fyrir frá því hann tók við starfinu að skipulagsbreytingar væru fyrirhugaðar innan bandalagsins. Samkvæmt heimildum NFS ætlar framkvæmdastjórinn sem sagt var upp í gær, að ræða stöðu sína við lögfræðing.

Arnþóri Helgasyni var sagt fyrirvaralaust upp störfum sem framkvæmdastjóri Öryrkjabandalagsins í gær, og var honum gert að hætta tafarlaust. Sigursteinn Másson, formaður bandalagsins, segir að uppsögnin sé nauðsynleg til að koma í gegn skipulagsbreytingum og hefði ekkert með fötlun Arnþórs að gera, en hann er blindur. Formaðurinn segir að allt frá því hann tók við starfinu í október síðastliðnum hafi legið fyrir að skipulagsbreytingar yrðu gerðar innan Öryrkjabandalagsins og þetta væri einfaldlega hluti af þeim. Aðspurður segir Sigursteinn að ákvörðunin um uppsögn Arnþórs hafi verið samþykkt samhljóða á fundi framkvæmdastjórnar bandalagsins sem í eru fimm manns. Þá segir hann frekari skipulagsbreytingar framundan, en þó ekki fleiri uppsagnir. Aðalstjórn Öryrkjabandalagins mun funda á fimmtudaginn en Sigursteinn segir uppsögnina í gær ekki vera á dagskrá þar.

Guðmundur Magnússon, sem á sæti í stjórninni, sagði samtali við NFS í morgun að hann væri afar óhress með að Arnþóri skuli hafa verið sagt upp. Þetta hafi komið sér mjög á óvart, enda vissi hann ekki betur en að framkvæmdastjórinn hafi staðið sig vel í starfi. Þá sagði Guðmundur að það væri ekki annað hægt en að fjalla um málið á stjórnarfundinum á fimmtudag, þrátt fyrir að formaður Öryrkjabandalagsins segi að það sé ekki á dagskrá þar. Samkvæmt heimildum NFS ætlar framkvæmdastjórinn fyrrverandi að ræða við lögfræðing um málið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×