Fleiri fréttir

Versta lagið fer í úrslit Eurovision

Eiríkur Hauksson stígur á svið í Helsinki í kvöld og flytur framlag Íslands Valentine Lost í undankeppni Eurovision. „Í fyrsta sinn er ég með lag sem mig langar virkilega að kynna fyrir Evrópu," segir hann. "Þegar ég fór í Gleðibankann var ég bara ráðinn í starfið." Íslenska lagið er best, en að mati Eiríks fer versta lagið, framlag Úkraínu, beint í úrslit .

Börn í Írak deyja eins og flugur

Engar hömlur eru á barnadauða í Írak. Eitt af hverjum átta börnum sem þar fæðast lifir ekki til fimm ára aldurs. Barnadauði í landinu hefur aukist um 150 prósent síðan árið 1990. Það er langtum meiri aukning en í nokkru öðru landi. Níu af hverjum tíu börnum sem deyja fyrir fimm ára aldur fæðast í 60 fátækustu löndum heimsins.

Danir elska stóra bróður

Níu af hverjum tíu Dönum eru hlynntir nýjum lögum sem heimila yfirvöldum að fjölga eftirlitsmyndavélum á göngugötum og torgum. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem gerð var þar í landi. Meirihluti er fyrir þessum lögum á danska þinginu og er búist við að þau verði samþykkt áður en þingið fer í sumarfrí.

Ríkið minnkar skattbyrði hátekjufólks á kostnað láglaunafólks

Tekjuskattur láglaunafólks hefur aukist á síðastliðnum tólf árum um 5 prósent en lækkað um allt 15 prósent á hjá hálaunafólki. Þetta kemur fram í grein Indriða H. Þorlákssonar, hagfræðings. Hann segir aukna skattbyrði láglaunafólks hafa leitt til lækkunar á ráðstöfunartekjum sama hóps um allt að 20 prósent.

Fjölmennt á fundi um uppbyggingu eftir bruna

Fjölmenni mætti í Listasafni Íslands í gær þar sem ræddar voru hugmyndir um uppbyggingu á horni Austurstrætis og Lækjargötu. Borgarstjóri lagði áherslu á að götumyndin fyrir brunann yrði varðveitt. Yfirskrift fundarins var hvernig bætum við brunann.

Tveir karlar og kona grunuð um aðild að hvarfi Madeleine

Portúgalska lögreglan hefur þrjár manneskjur grunaðar um að vera valdar að hvarfi Madeleine McCann í Portúgal fyrir viku síðan. Samkvæmt fréttastofu Sky er lögreglan að kanna aðild tveggja manna og konu, sem sáust með telpu sem svipar til Madeleine, að málinu.

Netsamband víða óviðunandi í dreifbýli

Aðgangur að netsambandi enn víða óviðunandi í dreifbýli. Ferðaþjónustubóndi í Þingeyjarsýslu segir ástandið eins og að búa í torfkofa en Síminn segir unnið að aukinni þjónustu.

Íslendingar kjósa að flytja til Danmerkur

Alls hafa 7.300 fleiri Íslendingar flutt frá landinu en til þess á síðustu tuttugu árum samkvæmt samantekt fjármálaráðuneytisins á búferlaflutningum íslenskra ríkisborgara. Á sama tíma hafa rúmlega 20 þúsund fleiri útlendingar flutt til landsins en frá því. Brottfluttir Íslendingar kjósa helst að búa í Danmörku.

Ríkisstjórnin heldur naumlega velli samkvæmt könnun Capacent

Samfylkingin og Vinstri græn bæta við sig fylgi samkvæmt nýrri könnun Capacent Gallup fyrir Morgunblaðið og Ríkisútvarpið. Fylgi Framsóknarflokksins minnkar hins vegar og sömuleiðis Íslandshreyfingarinnar. Ríkisstjórnin heldur naumlega velli samkvæmt könnuninni.

Yahoo kannar möguleika á netþjónabúi á Íslandi

Netfyrirtækið Yahoo kannar möguleika á því að reisa netþjónabú á Íslandi. Fulltrúar fyrirtækisins eru staddir hér á landi og funduðu í morgun með Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Guðlaugi Þór Þórðarsyni, stjórnarformanni Orkuveitunnar.

Landgræðslufélag Biskupstungna fékk hæsta styrkinn úr Pokasjóði

Landgræðslufélag Biskupstungna fékk hæsta styrkinn úr Pokasjóði verslunarinnar en úthlutað var úr sjóðnum í dag. Nemur styrkurinn 7,5 milljón krónum og fer í verkefni í tengslum við gróðurræktun á Haukadalsheiði. Alls var úthlutað rúmlega 100 milljónum úr Pokasjóði til 122 verkefna.

Á 153 km hraða á Gullinbrú

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði í gærkvöldi karlmann á tvítugsaldri fyrir ofsaakstur á Gullinbrú í Grafarvogi. Bíll hans mældist á 153 kílómetra hraða en þar hámarkshraði 60 kílómetrar. Maðurinn var færður á lögreglustöð til yfirheyrslu og sviptur ökuréttindum.

Allir nema sjálfstæðismenn vilja Norðlingaölduveitu úr sögunni

Allir stjórnmálaflokkarnir nema Sjálfstæðisflokkurinn hafa lýst yfir stuðningi við stækkun friðlands Þjórsárvera þannig að Norðlingaölduveita verði þar með úr sögunni. Þetta segja Náttúruverndarsamtök Íslands í tilkynningu fyrir fjölmiðla.

Dýrt að kjósa í Júróvisjón

Langsamlega dýrast er að kjósa í símakosningu Eurovision söngvakeppninnar á Íslandi og munar 44 krónum á Íslandi og næstdýrasta landinu, sem er Pólland. Íslendingar þurfa að greiða 99,9 krónur fyrir símtalið, en Danir verða hins vegar aðeins rukkaðir um þrjár krónur.

Norah Jones til Íslands í haust

Norah Jones heldur tónleika í Laugardalshöll 2. september nk. Um þessar mundir stendur Norah í ströngu við að fylgja eftir þriðju breiðskífu sinni, Not too late, sem kom út sl. janúar. Það er FL Group sem gerir tónleika Noruh Jones mögulega og stendur fyrir tónleikunum í samvinnu við Hr. Örlyg, segir í tilkynningu frá tónleikahöldurunum.

Blair hættir 27. júní

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, tilkynnti í morgun að hann myndi segja af sér þann 27. júní í sumar. Þetta kom fram á fundi hans með stuðningsmönnum sínum í kjördæmi hans, Sedgefield.

Nafni Höfðahrepps breytt í Skagaströnd?

Samþykkt hefur verið að gera skoðanakönnun á viðhorfi íbúa Höfðahrepps til þess að nafni sveitarfélagsins verði breytt og tekið upp nafnið Sveitarfélagið Skagaströnd. Samhliða Alþingiskosningum verður því spurt um viðhorf til nafnbreytingarinnar.

Grænmetisætur sveltu kornabarn í hel

Bandarískir foreldrar hafa verið dæmdir í lífstíðarfangelsi fyrir að svelta kornabarn sitt í hel. Crown Shakur var aðeins 1500 grömm að þyngd þegar hann lést, sex vikna gamall. Foreldrarnir, Jade Sanders og Lamont Thomas eru grænmetisætur og gáfu barninu mat í samræmi við þann lífsstíl sinn. Crown litli fékk aðallega smáskammta af eppelsínusafa og sojamjólk.

Jónína Bjartmarz friðlýsir æskustöðvar Jónasar Hallgrímssonar

Æskustöðvar Jónasar Hallgrímssonar, þjóðskálds, að Hrauni í Öxnadal verða framvegis á lista yfir friðlýst svæði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá umhverfisráðuneytinu. Jónína, Bjartmarz, umhverfisráðherra, undirritar friðlýsinguna í dag en þá verða einnig Arnarnesstrýtur á botni Eyjafjarðar friðlýstar.

Dómur kveðinn upp í máli á hendur Jónasi Garðarssyni í dag

Dómur verður kveðinn upp í dag í máli á hendur Jónasi Garðarssyni, fyrrverandi formanni Sjómannafélags Reykjavíkur. Jónas er ákærður fyrir manndráp af gáleysi með því að hafa verið valdur að dauða tveggja manna eftir að skemmtibátur hans, Harpan, steytti á Skarfaskeri á Faxaflóa haustið 2005.

Fullorðinsvefur fyrir blinda og sjónskerta

Athafnamaður á Bretlandi hefur sett upp nýja vefsíðu með efni fyrir fullorðna á. Hún er hins vegar frábrugðin að því leyti að hún er ætluð þeim sem eru blindir eða sjá mjög illa.

Fá rafmagn í fjóra tíma á dag

Almenningur í Zimbabwe mun aðeins fá rafmagn í fjórar klukkustundir í dag. Ákvörðunin tók gildi í dag og verður í gildi næstu þrjá mánuðina. Með þessu aðgerðum eru stjórnvöld að reyna að gefa kornbóndum í landinu orku til þess að knýja vatnsúðunarkerfi en þau eru nauðsynleg svo að ekki verði uppsprettubrestur í landinu.

Páfinn í Suður-Ameríku

Benedikt páfi er nú kominn til Sao Paulo og hefur þar fimm daga heimsókn sína til fjölmennustu rómversk-kaþólsku þjóðar í heiminum. Þetta er fyrsta heimsókn hans til Suður-Ameríku síðan hann tók við embætti.

Bíll á bíl ofan

Sérstætt óhapp varð nú síðdegis í Kaupvangsstrætinu á Akureyri eða Gilinu eins og það nefnist í daglegu tali. Bifreið annað hvort rann eða var bakkað niður brekkuna og yfir allháan kant og aftan á aðra bifreið og ofaná hana eins og sést á þessum myndum.

Pólitísk fegrunaraðgerð hjá Siv

Útspil heilbrigðisráðherra í barnatannlækningum viku fyrir kosningar er pólitísk fegrunaraðgerð, og einungis hænuskref í rétta átt segir dósent í samfélags- og barnatannlækningum við Háskóla Íslands. Hann segir þennan samning engu breyta um stigversnandi tannheilsu barna síðasta áratug.

Rokkaður framboðsfundur

Ungir frambjóðendur brugðu á leik í Stúdentakjallaranum í gærkvöldi ásamt rokkhljómsveitunum Vicky Pollard og Vafasöm síðmótun. Óhætt er að segja að framboðsfundurinn hafi verið fremur óhefðbundinn því hljómsveitirnar voru óhræddar við að þagga niður í frambjóðendum með því að þenja rafmagnsgítarana ef þeir héldu orðinu of lengi.

Vilja banna fjáraustur 90 dögum fyrir kosningar

Vinstri grænir boða frumvarp á komandi þingi sem bannar fjáraustur ráðherra og ríkisstjórnar síðustu níutíu dagana fyrir kosningar. Formaður flokksins segir ríkisstjórnina hafa gengið að göflunum undanfarnar vikur. Vinstri grænir vilja snúa við blaðinu í íslenskum stjórnmálum og kynntu tillögur sínar um græna framtíð, samfélag fyrir alla, kvenfrelsi og lýðræði í dag.

Fylgi flokka eftir kjördæmum

Hérna má sjá fylgi flokkanna skipt eftir kjördæmum. Í þeim kemur í ljós að Sjálfstæðisflokkurinn tapar manni í Reykjavík-Suður en stendur í stað eða bætir við sig í öðrum kjördæmum. Samfylkingin tapar manni í Reykjavík-Norður og Suðurkjördæmi en stendur í stað eða bætir við sig í öðrum kjördæmum. Framsókn tapar fylgi í öllum kjördæmum nema Suður og Vinstri grænir bæta við sig í öllum kjördæmum nema Norðausturkjördæmi.

Mikki mús með áróður

Útsendingum á barnatíma sjónvarpsstöðvar Hamas-samtakanna í Palestínu hefur verið hætt en í honum skoraði Mikki mús á áhorfendur sína að berjast til síðasta manns gegn hernámi Ísraela. Málið sýnir vel hversu snemma er alið á sundrungunni hjá börnum herteknu svæðanna.

Hver gýs í miðborg Reykjavíkur

Hver er farinn að gjósa í miðborg Reykjavíkur og tré hefur vaxið upp í gegnum bifreið á Skólavörðustígnum. Þessi náttúruundur tengjast Fornleifastofnun Frakklands og lokum frönsku menningarhátíðarinnar Pourquoi Pas?

Játar stórfellt kvótasvindl

Fyrrverandi útgerðarmaður á Vestfjörðum játar stórfellt kvótasvindl uppá þúsundir tonna.Þetta gerir hann í yfirlýsingu á Netinu. Hann játar fölsun farmbréfa þar sem þorskur er skráður sem varahlutir og að hann hafi mútað vigtarmanni fyrir að líta framhjá því að þorskafli var gefin upp sem steinbítur.

Ofbeldi algengt í starfi lögreglumanna

Nærri helmingur lögreglumanna hefur orðið fyrir ofbeldi í starfi, samkvæmt nýrri rannsókn. Um fjórðungi lögreglumanna hefur verið hótað ofbeldi utan vinnutíma vegna starfa sinna.

Madeleine McCann enn ófundin

Enn hefur ekkert spurst til litlu bresku telpunnar sem rænt var á Algarve í Portúgal fyrir viku síðan. Foreldrar hennar segjast enn vongóðir um að hún finnist heil á húfi.

Írsk stúlka fær leyfi fyrir fóstureyðingu í Bretlandi

Írsk táningsstúlka hefur unnið mál fyrir hæstarétti Dublinarborgar þar sem henni er heimilað að fara til Bretlands í fóstureyðingu. Læknar höfðu sagt 17 ára móðurinni að hluta af heila og höfuðkúpu fóstursins vantaði. Barnið myndi einungis lifa örfáa daga eftir fæðingu. Stúlkan er í umsjá heilbrigðisyfirvalda á Írlandi sem höfðu hindrað hana í að fara til Bretlands.

Harmar umfjöllun um fjöldskyldutengsl Páls inn í ráðuneyti

Landssamband lögreglumanna harmar þá umfjöllun sem átt hefur sér stað um fjölskyldutengsl Páls Winkels inn í dómsmálaráðuneytið í fjölmiðlum. Páll hefur einn manna sótt um stöðu aðstoðarríkisslögreglustjóra eftir að starfið var auglýst í Lögbirtingarblaðinu og greint var frá því að móðir hans væri ritari Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra.

Hægt að hringja í tré

Reykjavíkurborg og Vodafone gerðu í dag með sér samning sem miðar að því að draga úr áhrifum gróðurhúsalofttegunda í Reykjavík. Fólki gefst tækifæri á að hringja í númerið 900-9555 og þá gjaldfærast 500 krónur á símreikning þess.

Mikill sigur fyrir fólk sem þurfi þjónustu sálfræðinga

Halldór Kr. Júlíusson, formaður Sálfræðingafélags Íslands, segir dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli félagsins á hendur ríkinu og Samkeppniseftirlitinu mikinn sigur fyrir það fólk sem þurfi á þjónustu sálfræðinga að halda. Næsta eðlilega skref sé að heilbrigðisráðuneytið boði sálfræðinga til viðræðna um greiðsluþátttöku ríkisins í viðtalsmeðferðum.

Blair greinir frá framtíð sinni á morgun

Tony Blair forsætisráðherra Bretlands mun tilkynna ráðherrum á morgun um framtíð sína í embætti og sem leiðtoga Verkamannaflokksins. Þetta var staðfest af skrifstofu hans í dag samkvæmt fréttastofu Sky. Hann mun ekki halda sérstakan blaðamannafund til að greina frá ákvörðun sinni.

Allsnakin hefnd

Skilnaðurinn hafði verið bitur. Hinn 42 ára gamli Dani hafði verið borinn út úr húsi sínu og kærustu sinnar með fógetavaldi. Auk þess hafði verið sett á hann nálgunarbann. Hann vildi hefna sín. Kærastan rak eigið ráðgjafafyrirtæki. Honum tókst að stela listanum yfir viðskiptavini hennar. Og sendi þeim nektarmyndir af henni í allskonar stellingum.

Sjá næstu 50 fréttir