Innlent

Ríkið minnkar skattbyrði hátekjufólks á kostnað láglaunafólks

MYND/365

Tekjuskattur láglaunafólks hefur aukist á síðastliðnum tólf árum um 5 prósent en lækkað um allt 15 prósent á hjá hálaunafólki. Þetta kemur fram í grein Indriða H. Þorlákssonar, hagfræðings. Hann segir aukna skattbyrði láglaunafólks hafa leitt til lækkunar á ráðstöfunartekjum sama hóps um allt að 20 prósent.

Í grein sem Indriði birtir á vefsíðu sinni kemur fram að árið 1992 hafi tekjuskattur einstaklinga að meðaltali verið um 17 prósent af heildartekjum. Árið 2005 hafi meðalskatthlutfallið verið komið upp í 22 prósent. Indriði bendir á að hjá hjónum í lægsta tekjufjórðungi hafi skattbyrðin aukist um 10 til 14 prósentustig og hjá hjónum með meðaltekjur um 4,5 til 6 prósentustig. Hjá hjónum með hæstar tekjur hafi hins vegar skattbyrðin lækkað um 2 til 25 prósentustig á sama tímabili.

Þannig greiddu hjón með 4 milljónir í árstekjur að meðaltali 5 prósent hærri skatt árið 2005 en hjón með sömu rauntekjur árið 1995. Hjón með 4 til 6 milljónir greiddu svipað hlutfall tekna sinna í skatt og þeir hefðu greitt fyrir 10 árum af sömu rauntekjum. Aðrir með hærri tekjur greiddu árið 2005 lægra hlutfall af rauntekjum í skatt en áður eða allt upp í 15 prósent þegar tekjur eru komnar yfir 30 milljónir króna á ári.

Indriði telur ástæðuna vera að skattleysismörk hafi á undanförnum árum ekki hækkað í samræmi við tekjur og verðlag. Þess í stað hafi verið farin sú leið að lækka skatthlutfallið. Að mati Indriða er óhjákvæmileg afleiðing slíkra aðgerða sú að skattbyrðin færist frá þeim sem hafa hærri tekjur til hinna sem eru tekjulægri.

Sjá grein Indriða hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×