Innlent

Norah Jones til Íslands í haust

Not too late - Norah Jones kemur í haust
Not too late - Norah Jones kemur í haust
Norah Jones heldur tónleika í Laugardalshöll 2. september nk. Um þessar mundir stendur Norah í ströngu við að fylgja eftir þriðju breiðskífu sinni, Not too late, sem kom út sl. janúar.

Það er FL Group sem gerir tónleika Noruh Jones mögulega og stendur fyrir tónleikunum í samvinnu við Hr. Örlyg, segir í tilkynningu frá tónleikahöldurunum.

Norah, sem er dóttir hins víðfræga indverska tónlistarmanns Ravi Shankar, mun í Laugardalshöll koma fram með hljómsveit sinni, The Handsome Band, en þar er valinn maður í hverju rúmi. Norah er þekkt fyrir að bregða á leik á tónleikum og færa lög af breiðskífum sínum í nýjan búning eða spila lög eftir aðra listamenn á borð við Willie Nelson (sem hún segir fyrirmynd sína) og Tom Waits.

Fyrsta plata Noruh Jones - Come away with me - vakti heimsathygli þegar hún kom út árið 2003. Fyrir hana fékk Norah fimm Grammy verðlaun, en síðan hefur hún hlotið þrenn til viðbótar.

Norah gefur út hjá hinni sögufrægu plötuútgáfu Blue Note (sem sérhæfir sig í eðal-djassmúsík og gaf m.a. út verk Miles Davis og John Coltrane) og er sá listamaður fyrirtækisins sem flestar plötur hefur selt þrátt fyrir ungan aldur.

Miðasala á yfirstandandi tónleikaferðalagi hennar var fyrst kynnt í aðdáendaklúbbi hennar og það ber vinsældum hennar vitni að víða seldist upp á tónleika hennar nánast um leið og tilkynnt var um þá.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×