Innlent

Hægt að hringja í tré

Reykjavíkurborg og Vodafone gerðu í dag með sér samning sem miðar að því að draga úr áhrifum gróðurhúsalofttegunda í Reykjavík. Fólki gefst tækifæri á að hringja í númerið 900-9555 og þá gjaldfærast 500 krónur á símreikning þess. Þeir peningar verða svo notaðir til þess að gróðursetja tré í borginni.

Það er Skógræktarfélag Reykjavíkur sem sér um að planta trjánum sem gefin verða og er átakið viðbót við þau 500 þúsund tré sem gróðursetja á í landi Reykjavíkur á næstu þremur árum.

Það voru þeir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri og Árni Pétur Jónsson, forstjóri Vodafone, sem hringdu fyrstu símtölin í dag og gróðursettu tvær hríslur að því búnu í Grasagarði Reykjavíkur. Einnig innsigluðu þeir nýjan samning um fjarskiptaþjónustu milli borgarinnar og Vodafone.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×