Fleiri fréttir

Heildarafli dregist saman um 6,3% á árinu

Heildarafli íslenskra skipa hefur dregist saman um 6,3% á árinu. Heildaraflinn var 6,8% meiri í september nú en í september á síðasta ári. Aflinn nam tæpum 87.000 tonnum í september samanborið við tæp 65.000 tonn í september í fyrra. Þorskafli dróst saman í september um rúm 400 tonn, ýsuaflinn dróst saman um 500 tonn og karfaaflinn jókst um rúm 600 tonn.

Annar ráðherra segir af sér í Svíþjóð vegna hneykslismáls

Cecilia Stegö Chilo, menningarmálaráðherra Svíþjóðar, hefur sagt af sér embætti í kjölfar þess að upp komst að hún hefur ekki greitt afnotagjöld af sænska ríkissjónvarpinu í 16 ár og fyrir að hafa ekki gefið upp greiðslur til heimilishjálpar . Þetta tilkynnti hún með yfirlýsingu í morgun.

Eiturlyf á 20 mínútum

Einungis 20 mínútur tekur að verða sér úti um eiturlyf á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kom fram í fréttaskýringaþættinum Kompás í kvöld. Eitt símtal er nóg, en tálbeitan sem þáttarstjórnendur notuðu var sextán ára og þekkti sölumanninn ekki neitt. Í þættinum kom fram að 28% unglinga í 10. bekk hafir orðið ölvaðir á síðustu 30 dögum. Þá kom einnig fram að unglingar, allt niður í 11 ára neyta fíkniefna.

Ástæða til að rannsaka

Varaformaður Framsóknarflokksins telur ástæðu til að rannsaka hvort sími utanríkisráðherra hafi á sínum tíma verið hleraður. Árni Páll Árnason, sem býður sig fram í fyrsta sæti Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi, fullyrti í Silfri Egils í dag að sími hans hefði verið hleraður meðan hann starfaði sem lögfræðingur hjá Varnarmálaskrifstofu ráðuneytisins.

Dýragarðsljón þurfa líka hreyfingu

Hugvitssamir umsjónarmenn dýragarðs í Skotlandi og hafa fundið upp tæki sem hermir eftir bráð og á að koma hreyfingu á ljónin sem eru eins og önnur dýragarðsljón, ósköp löt við að hreyfa sig úr stað. Ef þau þurfa ekki að veiða sér til matar liggja þau frekar í leti. Dýragarðshöldurunum í Drummond Park dýragarðinum fannst að við svo búið mætti ekki standa.

Fljúgandi vandamál í roki

Fimm trampólín tókust á loft á Selfossi í gær og skemmdu tvo bíla. Lögreglan brýnir fyrir fólki að binda þau niður og bendir á að eigendur séu ábyrgir fyrir skemmdum sem lausamunir þeirra valda. Fljúgandi trampolín voru tilkynnt til lögreglu á Akureyri og Selfossi í gær. Á Selfossi tókust fimm trampólín á loft og náði eitt þeirra að skemma tvo bíla.

Segja atvinnuleysi aukast með samþykkt ILO

Samtök atvinnulífsins hafa staðið í vegi fyrir því að samþykkt frá Alþjóðavinnumálastofnuninni, um reglur um uppsagnir að hálfu atvinnurekanda, taki gildi hér á landi, því þær auki atvinnuleysi. Fyrrverandi starfsmaður hjá Alcan segir sárt að missa af svokölluðum flýttum starfslokum sem fólk með langan starfsaldur í álverinu hefur kost á.

Ætlar ekki að beita sér fyrir lagabreytingum

Landbúnaðarráðherra segir mikilvægt að mjólkuriðnaður hafi getað haft samráð sem hafi skilað mikilli hagræðingu. Hann ætlar ekki að fara að tilmælum Samkeppniseftirlitsins og beita sér fyrir því að mjólkuriðnaðurinn verði undanþeginn samkeppnislögum. Þessi viðbrögð ráðherra vekja furðu framkvæmdastjóra Mjólku.

Mótmæla ráðningu hjá Umhverfisstofnun

Kona, sem unnið hefur í sjö ár hjá Umhverfisstofnun, fékk ekki starf fagstjóra hjá stofnuninni heldur karlmaður sem aðeins hafði starfað þar í um þrjár vikur. Forstjóri Umverfisstofnunar vill ekki tjá sig um málið í fjölmiðlum á meðan það er enn óafgreitt.

Varað við sjálfviljugri aðskilnaðarstefnu múslima

Mikil umræða hefur sprottið upp í Bretlandi síðustu daga eftir að stjórnandi neðri málstofu Breska þingsins Jack Straw upplýsti að hann bæði múslima-konur með slæður að fjarlægja þær þegar þær kæmu á fund hans. Straw sagði að slæðurnar kæmu í veg fyrir árangursrík samskipti. Í viðtali við fréttastofu Sky varaði skuggaráðherra innanríkismála í Bretlandi, David Davis, við sjálfviljugri aðskilnaðarstefnu múslima.

Amish-fólkið styrkir ekkjuna

Ekkja byssumannsins sem skaut fimm amish stúlkur til bana í barnaskóla í Pensilvaníu í Bandaríkjunum, hefur þakkað samfélagi Amish fólksins fyrir ástríki og stuðning eftir að atburðurinn átti sér stað. Konan, Marie Roberts, sagði að hún og fjölskylda hennar væru djúpt snortin, en Amish fólkið stofnaði peningasjóð í banka í bænum til stuðnings Maríu og börnum hennar.

Maður slasaðist þegar ruslabíll valt

Ruslabíll frá Hringrás fór út af veginum í Bessastaðabrekku upp úr Fljótsdal undir kvöld í gær. Bíllinn lenti á hliðinni, en bílstjóri hans, karlmaður á þrítugsaldri, slasaðist og var fluttur með sjúkraflugvél til Reykjavíkur. Í sumar fór bíll frá fyrirtækinu út af í sömu brekku.

Mjólka undrast ummæli Guðna

Ólafur Magnússon framkvæmdastjóri Mjólku hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann undrast viðhorf landbúnaðarráðherra við að mjólkuriðnaðurinn verði ekki undanþeginn samkeppnislögum. Ummælin lét ráðherra falla í hádegisfréttum útvarpsins og sagðist ekki áforma að beita sér fyrir breytingu á búvörulögum, þannig að mjólkuriðnaður verði ekki undanþeginn samkeppnislögum.

Hundur truflar akstur

Kona á sjötugsaldri ók inn á þjóðveginn í Melasveit í Borgarfirði á öfugum vegarhelmingi og virtist ekki hafa fulla stjórn á bílnum. Snarræði ökumanna sem komu úr gagnstæðri átt bjargaði því að ekki varð árekstur. Í ljós kom að í kjöltu sinni hafði konan miðlungsstóran hund sem orsakaði að hún náði ekki að stýra farartækinu eins og lög gera ráð fyrir.

Innbrot í Keflavík

Brotist var inn í Holtaskóla í Keflavík í nótt og töluverðar skemmdir unnar á glugga og hurðum sem voru brotnar upp. Víða hafði verið rótað til. Ekki er ljóst hvort einhverju var stolið en talsverð eignaspjöll voru unnin á staðnum. Málið er í rannsókn.

Átta látast og 60 slasast í Írak

Átta manns létust í dag í röð bílasprengja í borginni Kirkuk í Írak. Samkvæmt lögreglu eru 60 manns slasaðir. Bylgja ofbeldis hefur gengið yfir á meðan föstumánuði múslima, ramadan, stendur, en læknar sögðu í dag að minnsta kosti 31 lík hefði fundist í borginni Balad.

Brúðarkjóll úr bollum

Konur leggja yfirleitt mikið upp úr brúðarkjólnum sem þær klæðast á brúðkaupsdaginn. Úkraínski bakarinn Valentín Stefanjo ákvað að konan sín tilvonandi skyldi sko klæðast algerlega einstæðum kjól þegar þau gengju í það heilaga. Hann bakaði því tvö þúsund litlar bollur, fyllti þær með rjóma og bjó til brúðarkjólinn úr þeim. Það tók hann tvo mánuði að koma kjólnum saman.

Sími Árna Páls hleraður

Árni Páll Árnason fyrrverandi starfsmaður varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins fullyrti í þættinum Silfri Egils í dag að sími hans hefði verið hleraður. Hann hafi verið varaður við á sínum tíma að fylgst væri með honum. Árni Páll sagði að það hefði í sjálfu sér ekki komið honum á óvart vegna eðli starfa hans.

Stofnandi hryðjuverkasamtaka fær lífstíðardóm

Abimael Guzman, stofnandi hryðjuverkasamtakanna Skínandi stígs í Perú, var í gær dæmdur í lífstíðarfangelsi. Guzman stýrði byltingartilraun Skínandi stígs, sem stóð í tólf ár, frá 1980 og fram á tíunda áratuginn. Átökin kostuðu um sjötíu þúsund manns lífið. Guzman sagði sjálfur að blóðbað væri nauðsynlegt til að knýja byltinguna áfram.

Ráðningu fagstjóra mótmælt

Kona sem unnið hefur í sjö ár hjá Umhverfisstofnun fékk ekki starf fagstjóra hjá stofnuninni heldur karlmaður sem aðeins hafði starfað þar í um þrjár vikur. Þessu hefur nokkur fjöldi starfsmanna stofnunarinnar mótmælt með undirskriftalista. Davíð Egilsson forstjóri Umhverfisstofnunar fékk afhentan undirskriftarlista með nöfnum 35 til 40 starfsmanna.

Rjúpnaveiðitímabilið hófst í dag

Rjúpnaveiðitímabilið hófst í dag og hefur umhverfisráðuneytið sett takmarkanir sem gilda munu um veiðina. Ekki er heimilt að veiða mánudaga, þriðjudaga og miðvikudaga og sölubann á rjúpu og rjúpnaafurðum er áfram í gildi. Svæðið á Reykjanesskaga verður áfram friðað og hvatningarátaki meðal veiðimanna um hófsamar og ábyrgar veiðar verður haldið áfram. Veiðitímabilinu lýkur 30. nóvember.

Borelius á rétt á árslaunum

Maria Borelius viðskiptaráðherra Svíþjóðar sem sagði af sér í gær á rétt á árslaunum frá ríkinu þrátt fyrir að hafa aðeins setið átta daga í embætti. Þau nema um tíu milljónum íslenskra króna. Það á þó eftir að koma í ljós hvort Borelius þiggi launin, en hún þurfti að segja af sér eftir að upp komst að hún hafði greitt barnfóstrum sínum laun án þess að gefa þau upp til skatts.

Forsetakosningar í Ekvador

Íbúar Ekvador kjósa sér nýjan forseta í dag, en þremur síðustu forsetum hefur verið steypt af stóli. Skoðanakannanir bentu til þess að hagfræðingurinn Rafael Correa nyti mestrar hylli, en hann er vinstri maður og mikill stuðningsmaður Hugos Chavez, hins umdeilda forseta Venesúela.

Jeppi valt við Sævarhöfða

Jeppi á leið vestur Sævarhöfða valt í gærkvöldi eftir að ökumaður missti stjórn á bílnum í aflíðandi beygju. Jeppinn snerist á götunni og valt á toppinn utan vegar. Ökumaðurinn sem var kona festist í bílnum og var dælubíll slökkviliðsins kallaður til. Konan náðist þó fljótlega út úr bílnum og var flutt með minniháttar meiðsl á slysadeild. Jeppin er mikið skemmdur.

Segir öryggisráðið eins og glæpagengi

Sendiherra Norður-Kóreu En Pak Gil Yon hjá Sameinuðu þjóðunum sagði öryggisráð samtakanna hafa hagað sér eins og glæpagengi, eftir að ályktun um refsiaðgerðir gegn landi hans var samþykkt einróma í ráðinu í gærkvöld. Hann sagði stjórn sín myndi líta á allan frekari þrýsting frá Bandaríkjunum sem stríðsyfirlýsingu og rauk út af fundinum.

Fljúgandi trampolín vaxandi vandamál

Trampolín eru vaxandi vandamál í slæmum veðrum þar sem eigendur þeirra binda þau sjaldnast niður. Á Selfossi var lögreglu tilkynnt um fimm fljúgandi trampolín í gær, eitt þeirra skemmdi tvo bíla, fyrst þegar það lenti á þaki bíls, en síðan þegar það tók aftur á loft og endaði í gegnum framrúðu á öðrum bíl þar sem það olli talsverðu tjóni.

Lögsókn út af krossi

Starfsmaður innritunarborðs Breska flugfélagsins British Airways hefur kært fyrirtækið eftir að það bannaði starfsmönnum að bera kross við einkennisfatnað þess. Nadia Eweida segir að hún hafi verið þvinguð til að fara í launalaust leyfi eftir að hún neitaði að taka krossinn af sér.

Þrír létust í hríðarbyl í New York

Þrír létust og þúsundir eru án rafmagns í Buffalo eftir að hríðarbylur gekk yfir New York ríki í gær. Rúmlega 60 sm snjór féll í miklu þrumuveðri á fimmtudag og föstudag, en það eru mestu snjóar í október síðan veðurstofan byrjaði mælingar fyrir 137 árum. Rafmagnsfyrirtæki áttu í miklum erfiðleikum að bæta úr rafmagsleysinu þar sem starfsmenn þeirra festust í snjónum eins og aðrir.

Kidman rödd kvenna í Kosovo

Kvikmyndaleikkonan og óskarsverðlaunahafinn Nicole Kidman hóf ferð um Kosovo í dag til að styrkja málefni kvenna í landinu og auka skilning á réttindum þeirra. Þetta er fyrsta embættisverk hennar sem velgjörðarsendiherra Sameinuðu Þjóðanna. Hún flaug frá Ítalíu til Pristinu, höfuðborgar Kosovo, eftir að hafa kynnt nýjust kvikmynd sína “Fur” á kvikmyndahátíð Rómaborgar.

Ropandi beljur auka gróðurhúsaáhrif

Vísindamenn í Bretlandi vinna nú að rannsóknum á áhrifum metangass sem kýr hleypa út í andrúsloftið þegar þær ropa, á hlýnandi loftslagi. Þar í landi reiknast vísindamönnununum til að í breskar kýr framleiði 3% af gróðurhúsaáhrifum í Bretlandi. Kýr auki þess vegna á hlýnun loftslags.

Veiðisvæði rjúpu í Borgarfjarðarsýslu kortlögð

Helstu veiðisvæði rjúpunnar í uppsveitum Borgarfjarðarsýslu hafa verið kortlögð þar sem hægt er að sjá hvar er leyfilegt að skjóta og hvar ekki. Kortið er gefið út af Hlunnindafélagi Borgarfjarðarsýslu sem var stofnað um nýtingu skotveiðihlunninda. Á kortinu er tilgreind landnýting, hvort viðkomandi svæði eða jörð sé friðuð og hvort landeigendur sjálfir nýta það til skotveiði eða leigi út.

Lúðvík opnar kosningaskrifstofu í Reykjanesbæ

Lúðvík Bergvinsson, þingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi opnaði kosningaskrifstofu í Reykjanesbæ í dag. Skrifstofan er til húsa að Hafnargötu 86, í sal gömlu Aðalstöðvarinnar. Lúðvík er einn fjögurra frambjóðenda í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi sem sækist eftir að leiða listann.

Hneyksli að svínað hafi verið á Mjólku

Framkvæmdastjóri Félags íslenskra stórkaupmanna segir vonbrigði að í tillögum ríkisstjórnarinnar til lækkunar matvælarverðs sé ekki tekið á mjólkuriðnaðinum. Hann segir hneyksli að fyrirtæki í einokunarstöðu, eins og Osta- og smjörsalan, hafi svínað á fyrirtæki eins og Mjólku sem reyni að virkja samkeppni.

Samkeppni nauðsynleg

Framkvæmdastjóri Félags íslenskra stórkaupmanna segir vonbrigði að í tillögum ríkisstjórnarinnar, til lækkunar matvælarverðs, sé ekki tekið á mjólkuriðnaðinum. Hann segir hneyksli að fyrirtæki í einokunarstöðu, eins og Osta- og smjörsalan, hafi svínað á fyrirtæki eins og Mjólku sem reyni að virkja samkeppni.

Nýtur ekki sömu virðingar og áður

Nýtt fjögur þúsund manna verkalýðsfélag var stofnað í dag þegar Félag járniðnaðarmanna og Vélstjórafélag Íslands sameinuðust. Formaður félagsins, segir iðn- og tæknimenntun ekki njóta sömu virðingar og áður

Öryggisráð SÞ samþykkir refsiaðgerðir gegn N-Kóreu

Bandaríkin, Bretland og Frakkland komust hjá ágreiningi við Rússland og Kína um refsiaðgerðir gegn Norður Kóreu og samþykktu öll 15 aðildarríki öryggisráðsins nýja ályktun. Hún felur í sér að Norður Kórea eyðileggi öll kjarnorkuvopn, gjöreyðingarvopn og langdrægar flaugar, en útilokar hernaðaraðgerðir gegn landinu.

Vörugjöldin eru úrelt

Samtök atvinnulífsins vilja fara aðrar leiðir en ríkisstjórnin ætlar til að lækka verð á matvælum og segja verðlag á Íslandi geta orðið svipað og í Finnlandi og Svíþjóð með því að afnema vörugjöld og lækka tolla. Samtökin segja ekki þurfa lækkun virðisaukaskatts til að ná fram lægra vöruverði.

Samfylkingin vill meira fé í velferðarkerfið

Það er ömurlegt að aldraðir og öryrkjar búi ekki við sómasamleg lífskjör á sama tíma og ríkissjóður hefur aldrei tekið til sín stærri hluta af þjóðarkökunni, segir formaður Samfylkingarinnar en Íslendingar eiga heimsmet í aukningu á skattbyrði, samkvæmt úttekt OECD.

American Graffiti á Höfn

Hornfirska skemmtifélagið frumsýnir í kvöld tónlistarsýninguna "American Graffiti" á Hótel Höfn. Tuttugu og sjö manns taka þátt í sýningunni. Allt eru það áhugaleikarar og tónlistarmenn frá Hornafirði. Kristín Geirsdóttir leikstjóri segir tækifæri á landsbyggðinni ekki mörg fyrir ungt fólk. "Mitt áhugamál er að gefa þessu unga fólki tækifæri til að þróa sig áfram í listinni."

Sjálfsmorð eftir ímyndað morð unnustu

Pakistanskur maður framdi sjálfsmorð fyrir utan hús unnustu sinnar í Karachi þegar hann hélt að hann hefði ráðið henni bana af gáleysi. Maðurinn var vopnaður byssu og skaut í sífellu af henni í loftið fyrir utan hús hennar í þeirri von að fá athygli unnustunnar og fá hana til að giftast sér tveim mánuðum fyrr en áætlað hafði verið.

Skjóta Tíbeta á flótta

Rúmenskir kvikmyndatökumenn náðu því á mynd þegar kínverskir landamæraverðir skutu á hóp Tíbeta sem var fótgangandi á leið yfir til Nepals. Tveir létu lífið. Kínversk stjórnvöld viðurkenna að átök hafi átt sér stað, en halda því fram að fólkið hafi ráðist á landamæraverðina.

Helgi Laxdal formaður nýs verkalýðsfélags

Helgi Laxdal, fráfarandi formaður Vélstjórafélags Íslands, verður fyrsti formaður nýs sameiginlegs verkalýðsfélags vélstjóra og járniðnaðarmanna sem stofnað var á Grand hóteli í dag. Hið nýja félag heitir Félag vélstjóra og málmiðnaðarmanna og hefur um 4.000 félagsmenn.

Jón G. Snædal forseti Alþjóðafélags lækna

Jón G. Snædal, læknir og sérfræðingur í öldrunarlækningum við Landsspítala Háskólasjúkrahús, var í dag kjörinn forseti Alþjóðafélags lækna á aðalfundi félagsins í Pilanesberg í Suður-Afríku. Jón er kosinn fyrir starfsárið 2007-2008, en kosningin er bæði viðurkenning fyrir íslenska lækna og mikill persónulegur heiður.

Titringur í ríkisstjórn Reinfeldts

Viðskiptaráðherra Svíþjóðar Maria Borelius hefur sagt af sér eftir einungis eina viku í embætti. Hún hefur viðurkennt að hafa ráðið barnfóstrur án þess að borga skatta og önnur launatengd gjöld. Forsætisráðherrann Fredrik Reinfeldt greindi frá því í útvarpsviðtali að þau hefðu komist að samkomulagi um afsögnina.

Rússneskt diskó og messa í Reykjavík

Rússnesk menningarhátíð hófst í Neskirkju í Reykjavík í dag. Upphaf hátíðarinnar var messa að hætti rétttrúnaðarkirkjunnar, á verndardegi Maríu meyjar. Hátíðinni verður framhaldið í næstu viku og verður meðal annars boðið upp á rússneskt diskótek um komandi helgi.

Sjá næstu 50 fréttir