Innlent

Jón G. Snædal forseti Alþjóðafélags lækna

Jón G. Snædal (til vinstri) og Sigurbjörn Sveinsson á ársfundi félagsins í Tókýó árið 2004.
Jón G. Snædal (til vinstri) og Sigurbjörn Sveinsson á ársfundi félagsins í Tókýó árið 2004.

Jón G. Snædal, læknir og sérfræðingur í öldrunarlækningum við Landsspítala Háskólasjúkrahús, var í dag kjörinn forseti Alþjóðafélags lækna á aðalfundi félagsins í Pilanesberg í Suður-Afríku.

Jón er kosinn fyrir starfsárið 2007-2008, en kosningin er bæði viðurkenning fyrir íslenska lækna og mikill persónulegur heiður.

Alþjóðafélag lækna, World Medical Association, var stofnað eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar til að styrkja siðfræðilegan grundvöll lækna víða um heim og hindra þátttöku þeirra í mannréttindabrotum og annarri mannlegri niðurlægingu og ofbeldi. Félagið hefur starfað samkvæmt þessum hugsjónum og hefur siðamál lækna, mannréttindi og félagsleg réttindi almennings í öndvegi.

Jón er fæddur í Reykjavík 1950. Hann hefur verið í forsvari í ýmsum nefndum og ráðum tendgdum öldrunarlækningum, kennt við Háskóla Íslands og háskólasjúkrahúsið í Lundi í Svíþjóð þaðan sem hann lauk framhaldsnámi í lyf-og öldrunarlækningum.

 

 

Jón er kvæntur Guðrúnu Karlsdóttur hjúkrunarfræðingi og á fimm börn auk tveggja uppkominna fósturbarna.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×