Erlent

Dýragarðsljón þurfa líka hreyfingu

Hugvitssamir umsjónarmenn dýragarðs í Skotlandi og hafa fundið upp tæki sem hermir eftir bráð og á að koma hreyfingu á ljónin sem eru eins og önnur dýragarðsljón, ósköp löt við að hreyfa sig úr stað. Ef þau þurfa ekki að veiða sér til matar liggja þau frekar í leti. Dýragarðshöldurunum í Drummond Park dýragarðinum fannst að við svo búið mætti ekki standa og settu saman vélmenni sem á að vekja upp veiðihug í ljónunum. Þessum undarlega sebrahesti er fjarstýrt og hann kemst upp í fimmtíu kílómetra hraða á klukkustund. Vélsebrahesturinn fer reyndar hægar en alvöru bráð á sléttum Afríku, en samt nógu hratt til að láta ljónin spretta aðeins úr spori og koma blóðinu á hreyfingu. Hönnuður tækisins segist vonast til að það verði komið í flesta dýragarða áður en langt um líður, bæði líði dýrunum betur og svo fái gestirnir miklu meira út úr því að sjá ljónin á hlaupum en flatmagandi í leti sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×