Fleiri fréttir

Fimmtán mánaða fangelsi fyrir nauðgun

Hæstiréttur dæmdi í dag karlmann í fimmtán mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot. Hann var ákærður fyrir að hafa haft samræði við konu í samkvæmi á meðan hún gat ekki spyrnt á móti sökum ölvunar og svefndrunga.

Segir laun ungra lækna hafa hækkað langmest

Læknanemar á fjórða og fimmta ári mættu ekki til vinnu sinnar á Landspítalanum í dag til þess að mótmæla því sem þeir kalla kjaraskerðingu af hálfu stjórnenda spítalans. Lækningaforstjórinn segir hins vegar að laun ungra lækna hafi hækkað langmest í nýgerðum kjarasamningum.

Segir ríkisstjórnina þurfa bregðast við

Jón Gunnarsson, alþingismaður, vill að ríkisstjórn Íslands beiti sér fyrir því að Bandaríkjaher fari ekki með heilsufarsupplýsingar starfsmanna varnarliðsins úr landi. Það sé réttur þeirra starfsmanna sem þar hafa unnið og hafa notið læknisaðstoðar hersins.

Slitnað upp úr meirihlutaviðræðum í Mosfellsbæ

Slitnað hefur upp úr meirihlutaviðræðum Framsóknarflokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri - grænna í Mosfellsbæ. Þær hófust eftir að ljóst var að Sjálfstæðisflokkurinn hafði tapað hreinum meirihluta sínum í kosningunum á laugardag.

Spennan á Gasa svæðinu eykst

Spennan á Gasa svæðinu í Palestínu jókst í dag þegar hershöfðingi í öryggissveit landsins féll og þrír aðrir særðust í tveimur skotbardögum milli Hamas samtakanna og öryggissveita landsins sem stjórnað er af Fatah hreyfingunni. Skotbardagarnir brutust út eftir að þúsundir lögreglumanna söfnbuðust saman á götu úti, skutu af byssum sínum upp í loft og kröfðust þess að fá launin sín greidd.

Þrjátíu ár frá lokum þorskastríðsins

Þrjátíu ár eru síðan Íslendingar unnu fullnaðarsigur á breska heimsveldinu í hinum harðvítugu þorskastríðum, því 1. júní 1976 var svonefnt Óslóarsamkomulag undirritað, þar sem Bretar viðurkenndu 200 mílna fiskveiðilögsögu Íslands. Baráttunni um yfirráðin yfir auðlindinni er þó hvergi nærri lokið.

Hættir að vera öryrki í augum hins opinbera

Öryrkjar fá allt að fjórðungskauplækkun í afmælisgjöf þegar þeir ná eftirlaunaaldri. Á sextíu og sjö ára afmælisdaginn hættir öryrkinn að vera öryrki í augum hins opinbera og má þá sætta sig við tugþúsunda kauplækkun.

Viðbrögð Írana varfærin

Íranar eru reiðubúnir til viðræðna við Bandaríkjamenn um kjarnorkumál en segja þó að ekki komi til greina að hætta auðgun úrans. Fulltrúar sex af voldugustu ríkjum veraldar sátu á rökstólum í dag og skeggræddu horfurnar.

Lagðir inn vegna tölvuleikjanotkunar

Dæmi eru um að ungir drengir séu lagðir inn á geðdeild vegna gegndarlausrar tölvuleikjanotkunar. Yfirlæknir á barna- og unglingageðdeild segir mikla tölvuleikjanotkun algenga hjá unglingum sem koma í meðferð.

Viðræður í Mosfellsbæ í óvissu

Viðræður um myndun nýs meirihluta í Mosfellsbæ milli Framsóknarflokks, Samfylkingarinnar og Vinstri - grænna eru í mikilli óvissu eftir að framsóknarmenn slitu formlegum viðræðum í dag. Einhverjar þreifingar eiga sér þó stað og ræðst það að öllum líkindum í kvöld eða morgun hvort að samstarfinu verður.

Réttindabót samkynhneigðra

Guðrún Ögmundsdóttir segir lög um réttarstöðu samkynhneigðra, sem að öllum líkindum verða samþykkt eftir helgi, vera réttarbót sem líkja má við þegar konur fengu sín grundvallarmannréttindi. Með lögunum er verið að eyða öllum ójöfnuði í lögum er varða samkynhneigða. Enn vantar þó að heimila trúfélögum að gefa saman samkynhneigða. Sigurjón Þórðarson, þingmaður Frjálslynda flokksins, lagði fram breytingartillögu þessa efnis en dró hana til baka í gær.

Átján mánaða fangelsi fyrir að ráðast á lögregluþjóna

Hæstiréttur Íslands staðfesti í dag átján mánaða fangelsisdóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir karlmanni fyrir árás á tvo lögregluþjóna. Maðurinn lagði til lögregluþjónanna með hnífi eftir að lögreglan hafði afskipti af honum á heimili hans. Maðurinn var einnig dæmdur fyrir hótanir og eignarspjöll.

Hæstiréttur staðfestir sýknudóm á 365 prentmiðla

Hæstiréttur hefur staðfest sýknudóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Jónínu Benediktsdóttur á hendur 365 prentmiðlum og Kára Jónassyni, ritstjóra Fréttablaðsins, vegna tölvupósta í tengslum við upphaf Baugsmálsins.

Viðræðum J- og D-lista á Dalvík slitið

Sjálfstæðismenn hafa slitið meirihlutaviðræðum við J-lista óháðra í Dalvíkurbyggð eftir skamman tíma. Þær hófust á þriðjudag eftir að viðræður sjálfstæðismanna, framsóknarmanna og vinstri - grænna um meirihlutasamstarf fóru út um þúfur.

Ein milljón til neyðaraðstoðar á Jövu

Hjálparstofnun kirkjunnar hefur sent eina milljón króna til neyðaraðstoðar á Jövu. Nú er ljóst að rúmlega sex þúsund og tvö hundruð manns fórust í jarðskjálftanum sem reið yfir indónesísku eyjuna Jövu á laugardaginn.

Vilja fresta uppbyggingu hátæknisjúkrahús

Samtök atvinnulífsins vilja að uppbyggingu hátæknisjúkrahús Landspítala-háskólasjúkrahús verði frestað. Þau vilja að þess í stað einbeiti heilbrigðisyfirvöld sér að því að bæta þjónustu á sviðum eins og í öldrunarmálum.

Einn látinn og sjö saknað eftir skipaárekstur á Eyjahafi

Vöruflutningaskip frá Tyrklandi og grískt olíuflutningaskip rákust saman á Eyjahafi, skammt frá grísku eyjunni Hydra, upp úr hádegi í dag með þeim afleiðingum að vöruflutningaskipið sökk. Þrettán voru í áhöfn þess; eitt lík fannst fljótlega eftir að skipið sökk, sjö mönnum hefur þegar verið bjargað en fimm úr áhöfninni er enn leitað.

14 slösuðust í gassprengingu

14 slösuðust þegar gassprenging varð í kjallara 5 hæða húss í íbúðahverfi Istanbúl í Tyrklandi í morgun.

Forsætisráðherra Íraks ætlar að höggva á hnútinn

Nuri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks, ætlar að útnefna menn í embætti innanríkis- og varnarmálaráðherra landsins þegar þing kemur saman til fundar á sunnudaginn. Illa hefur gengið að skipa í embættin í þjóðstjórn landsins þar sem sjíar, súnníar og kúrdar hafa deilt um ráðherrastólana.

10, 50 og 100 krónu seðlar innkallaðir

Seðlabanki Íslands er nú að innkalla 10, 50 og 100 krónu seðla en um tvær og hálf milljón slíkra seðla er enn í umferð eða sem nemur um 119 milljónum króna. Þrátt fyrir að fyrir flestum séu 10, 50 og 100 krónu seðlar eitthvað sem heyrir sögunni til eru seðlarnir enn lögeyrir.

6200 fórust í jarðskjálftanum á Jövu

Nú er ljóst að rúmlega 6200 manns fórust í jarðskjálftanum sem reið yfir indónesísku eyjuna Jövu á laugardaginn. Sameinuðu þjóðirnar segja neyðargögn hafa borist á flesta þá staði þar sem aðstoðar er þörf.

Meirihluti í Fjallabyggð

Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn í Fjallabyggð, nýju sameinuðu sveitarfélagi Ólafsfjarðar og Siglufjarðar, ákváðu í gærkvöldi að mynda meirihluta í bæjarstjórn. Fleiri meirihlutar eru í burðarliðnum þessa stundina.

Rammasamkomulag undirritað

Fulltrúar Norðuráls, Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja undirrituðu í morgun rammasamkomulag um útvegun Orkuveitunnar og Hitaveitunnar á raforku til álvers í Helguvík á Reykjanesi.

Hætt kominn vegna eitrunar

Ungur Íslendingur var hætt kominn og félagi hans veiktist alvarlega vegna eitrunar á hóteli í Búlgaríu í síðustu viku og eru þeir rétt að ná sér. Mennirnir dvöldu ásamt þriðja íslendingnum á sama hótelherbergi og kvörtuðu undan ágangi skordýra. Að því búnu hélu þeir út en einn þerra sneri fljótt til baka og lagði sig. Þegar hinir komu aftur var hann orðinn veikur og þegar annar þeirra hafði líka lagt sig um stund, vaknaði hann upp með sömu einkenni og hinn. Þeir urðu báðir svo máttfarnir að sjúkraflutningamenn þurftu að sækja þá upp á herbergi og voru þeir fluttir á sjúkrahús, þar sem þeir fengu strax bætienfi og næringu í æð, og aðra aðhlynningu. Eftir rúman sólarhring þar, fengu þeir að snúa aftur á hótelið og fengu nýtt herbergi, vegna gruns um að hættulegt skordýraeitur í fyrra herberginu hafi valdið veikindum þeirra. Sindri Alexandersson, sá sem veiktist minna, sagði í viðtali við NFS í morgun að þeir félagar væru orðnir rólfærir og aðeins farnir að geta nært sig, en ætluðu þrátt fyrir allt ekki að flýta heimförinni, enda landið fallegt, og svo muni ferðatrygging greiðslukortanna greiða sjúkrakostnaðinn.

Forsætisráðherra vill bíða skýrslu um símhleranir

Forsætisráðherra vill ekkert aðhafast vegna símhlerana hér á landi á kalda stríðsárunum, fyrr en skýrslu hefur verið skilað um málið. Þetta kom fram í utandagskrárumræðu á Alþingi í morgun. Formenn stjórnarandstöðunnar vilja að Alþingi komi að málinu frá upphafi.

Mikael Torfason nýr ritstjóri tímaritsins Séð og heyrt

Mikael Torfason, fyrrverandi ritstjóri DV, hefur verið ráðinn sem ritstjóri Séð og heyrt tímabundið en Elín Guðrún Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri Fróða, staðfesti þetta í samtali við NFS. Mikael hefur undanfarið starfað á vegum Dagsbrúnar við undirbúning að fríblaði sem gefa á út í Danmörku.

Íranar hætta ekki auðgun úrans

Stjórnvöld í Íran tilkynntu í morgun að þau væru tilbúin til viðræðna við Bandaríkjamenn um kjarnorkumál en þau myndu samt ekki hætta auðgun úrans líkt og stjórnvöld í Washington gera kröfu um.

Málaferli í uppsiglingu

Margvísleg málaferli virðast vera í uppsiglingu eftir úrskurð Óbyggðanefndar um hvaða landsvæði á Suðvesturlandi skulu teljast þjóðlendur í ríkiseign. Þetta er að gerast þrátt fyrir að Óbyggðanefnd hafi hafnað hátt í helmingi krafna ríkisins til þjóðlendna.

Rokkað í Reykjavík aflýst

Tónlistarhátíðinni Rokkað í Reykjavík, sem átti að halda eftir mánuð, hefur verið aflýst vegna dræmrar sölu á aðgöngumiðum.

Bíll valt út af þrengslavegi

Ökumaður slasaðist, en þó ekki alvarlega, þegar bíll hans valt út af þrengslavegi í nótt. Vegfarandi, sem kom þar að, tók ökumanninn upp í og hringdi eftir sjúkrabíl.

Hermenn skutu ólétta konu til bana

Bandarískir hermenn skutu ólétta konu til bana í Bagdad í gær. Konan var á leið á fæðingardeildina þegar atvikið varð. Ekki hafa fengist upplýsingar um hvers vegna þeir skutu konuna en fréttaskýrendur í Írak segja að almennir borgarar sem banað hefur verið af bandarískum hermönnum síðan innrás Bandaríkjamanna hófst fyrir þremur árum séu mörg hundruð.

Deilt um ákvarðanavald í Austur-Tímor

Forseta og forsætisráðherra Austur-Tímor greinir á um hvor fer með ákvarðanavald í ríkisstjórn landsins nú um stundir. (LUM) Forsetinn, Xanana Gusmao, tilkynnti í fyrradag að forsætisráðherrann, Mari Alkatiri, hefði afhent sér völdin eftir að tilraunir til að koma á friði í landinu hefðu mistekist. Alkatiri lýsti því hins vegar yfir í gær að hann færi að hluta til enn með völd í Austur-Tímor.

Rammasamkomulag undirritað

Fulltrúar Norðuráls, Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja ætla í dag að undirrita rammasamkomulag um útvegun Orkuveitunnar og Hitaveitunnar á raforku til álvers í Helguvík á Reykjanesi.

Sérkennileg staða varðandi virkjunarsvæði á Hellisheiði

Óbyggðanefnd hafnaði hátt í helmingi krafna ríkisins til þjóðlendna á Suðvesturlandi, þótt ýmsir hagsmunaaðilar uni illa niðurstöðum nefndarinnar. Einkum er komin upp sérkennileg staða varðandi virkjunarsvæði Orkuveitu Reykjavíkur á Hellsiheiði.

Íranar ætla ekki að hætta auðgun úrans

Íranar tilkynntu í morgun að þeir myndu ekki hætta auðgun úrans, þrátt fyrir sáttaumleitan Bandaríkjamanna í gær. Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, tilkynnti í gær að stjórnvöld í Washington væru tilbúin til viðræðna við Írana um stefnu þeirra í kjarnorkumálum. Það skilyrði er þó sett að Íranar hætti þegar auðgun úrans.

Enn óeirðir í París

Nokkur hundruð lögreglumenn stóðu vaktina í úthverfum Parísar í nótt. Þrátt fyrir rólegri nótt en síðustu tvær kveiktu mótmælendur í allmörgum bifreiðum og öskutunnum og voru þrír handteknir.

D- og B-listi mynda meirihluta í Fjallabyggð

Sjálfstæðismenn og framsóknarmenn í Fjallabyggð, nýju sameinuðu sveitarfélagi Ólafsfjarðar og Siglufjarðar, ákváðu í gærkvöld að mynda meirihluta í bæjarstjórn.

Sprenging í efnaverksmiðju á Englandi

Mikil sprenging varð í efnaverksmiðju á Englandi seint í gærkvöld. Greiðlega gekk þó að slökkva eldinn og segja sérfræðingar enga hættu steðja að en verksmiðjan er í um 400 kílómetra fjarlægð frá Lundúnum.

Norður-Kóreumenn bjóða Bandaríkjamönnum til viðræðna

Stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa boðið helsta samningamanni Bandaríkjastjórnar í kjarnorkudeilu landanna til viðræðna í höfuðborginni, Pyongyang. Þar með hafa norðurkóresk stjórnvöld látið í ljós vilja til að hefja á ný viðræður sem ríkin tvö, auk Rússlands, Kína, Suður-Kóreu og Japans, taka þátt í.

Bandaríkjastjórn breyti aðferðum sínum

Stjórnvöld í Íran segja að Bandaríkjastjórn verði að breyta aðferðum sínum, ef hún vilji að samskipti milli ráðamanna í Teheran, höfuðborg Írans, og Washington breytist í framtíðinnni. Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, tilkynnti í gær að stjórnvöld í Washington væru tilbúin til viðræðna við Írana um stefnu þeirra í kjarnorkumálum.

Sjá næstu 50 fréttir