Erlent

Þrjátíu ár frá lokum þorskastríðsins

Þrjátíu ár eru síðan Íslendingar unnu fullnaðarsigur á breska heimsveldinu í hinum harðvítugu þorskastríðum, því 1. júní 1976 var svonefnt Óslóarsamkomulag undirritað, þar sem Bretar viðurkenndu 200 mílna fiskveiðilögsögu Íslands. Baráttunni um yfirráðin yfir auðlindinni er þó hvergi nærri lokið.

Ísland varð lýðveldi 17. júní 1944 en sumir segja að efnahagslegt sjálfstæði hafi ekki fengist fyrr en þennan dag fyrir þrjátíu árum þegar Bretar viðurkenndu loks 200 mílna fiskveiðilögsögu landsins. Þorskastríðið sem lauk 1. júní 1976 var raunar það þriðja sem þjóðirnar áttu í, því einnig kom til átaka þegar fiskveiðilögsagan var færð út í 12 mílur árið 1958 og 50 mílur árið 1972. Í öll stríðunum þremur sendu Bretar herskip á vettvang og í síðasta stríðinu slitu þeir stjórnmálasambandi um tíma við Ísland. Að líkindum gerðu breskir ráðamenn sér samt grein fyrir því að baráttan var vonlaus strax frá upphafi. Hafréttarstofnun Íslands minntist tímamótanna í dag með málþingi í Háskóla Íslands þar sem ný bók Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings um þorskastríðin var kynnt.

Enginn dregur 200 mílurnar lengur í efa en það þýðir þó ekki að öll hafréttarmál séu þar með úr sögunni. Nú standa yfir viðræður um landgrunnssvæði sem eru utan fiskveiðilögsögunnar. Þau svæði eru á Reykjaneshrygg, sem raunar einungis Íslendingar gera tilkall til, landgrunnið við Hatton Rockall, sem Færeyingar, Írar og Bretar krefjast einnig ráðstöfunarréttar yfir og Síldarsmugan þar sem Færeyingar og Norðmenn hafa einnig krafist landgrunnsréttindi. Þróun þessara mála getur haft verulega þýðingu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×