Fleiri fréttir

Mómæli við íslenska sendiráðið í London

Virkjunarframkvæmdum við Kárahnjúka var mótmælt við íslenska sendiráðið í London í dag. Eftir að hafa mótmælt fyrir utan sendiráðið hélt hópurinn að vísindasafninu í London. Þar stendur nú yfir sýningin Pure Iceland en Landsvirkjun er meðal þeirra sem styrkja sýninguna.

Hungursneyð yfirvofandi í Kenýa

Hungursneyð er yfirvofandi í norðvesturhluta Kenýa vegna mikilla þurrka fimmta árið í röð. Stór hluti svæðisins er nánast skrælnaður, nautgripir hafa drepist og uppskera visnað. Þegar í janúar liðu um 3.5 milljón manna skort í kjölfar þurrkanna.

Óvíst hvort skipulögð amfetamínframleiðsla fari fram á Íslandi

Yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar segir ekki hægt að fullyrða að skipulögð amfetamínframleiðsla fari fram hér á landi, þó vissulega sé óyggjandi að menn fikti við slíkt. Tilkynnt var í dag að tveir Litháar væru í haldi lögreglunnar, grunaðir um að tengjast framleiðslu á amfetamíni.

Breski herinn krafinn um skaðabætur

Tveir þeirra ungu Íraka, sem breskir hermenn gengu í skrokk á í Basra fyrir tveimur árum, ætla að lögsækja breska herinn og krefjast skaðabóta.

Reykingabann á Englandi 2007

Frá og með sumrinu 2007 verður bannað að reykja á krám og næturklúbbum á Englandi. Neðri deild breska þingsins samþykkti stjórnarfrumvarp þess efnis með miklum meirihluta atkvæða í kvöld.

Ár liðið frá morðinu á Hariri

Hundruð þúsunda komu saman í Beirút, höfuðborg Líbanons, í dag til að minnast þess að ár er liðið frá því Rafik Hariri, fyrrverandi forsætisráðherra landsins, var myrtur.

Milljónum þegar varið í fuglaflensuvarnir

Hið opinbera hefur þegar varið yfir hundrað milljónum króna í fuglaflensuvarnir. Kostnaðurinn verður margfalt meiri ef flensan verður að faraldri og er til dæmis áætlað að einnota sóttvarnarbúningar myndu kosta allt að þrjú hundruð milljónum króna. Sérstakur viðbúnaður verður til að rannsaka farfugla þegar þeir koma til landsins í vor.

Olmert segir Íransforseta altekinn af gyðingahatri

Ehud Olmert, sitjandi forsætisráðherra Ísraels, segir Íransforseta altekinn af gyðingahatri. Þetta sagði Olmert í ávarpi til leiðtoga bandarískra gyðinga sem eru í heimsókn í Jerúsalem í dag. Íransforseti hefur hvatt til þess að Ísrael verði þurrkað af yfirborði jarðar og sagt að helför nasista gegn gyðingum sé þjóðsaga. Olmert hvatti til þess að alþjóðasamfélagið bregðist af hörku við kjarnorkuáformum Írana.

Þrjár milljónir ókeypis ferða

Lággjaldaflugfélagið Ryanair bauð í dag upp á þrjár milljónir ókeypis ferða eftir að hafa verið sakað um að fylgja ekki ítrustu öryggisreglum. Ásakanirnar komu fram í sjónvarpsþætti eftir að tveir fréttamenn réðu sig sem flugþjóna hjá félaginu til að afla upplýsinga. Þeir hafi komist að því að ekki væri alltaf farið eftir ströngustu reglum sem flugfélögum eru settar. Breska samgönguráðuneytið segist ætla að kanna hvort eitthvað sé hæft í ásökunum fréttamannanna.

Byrjaðir að auðga úran

Stjórnvöld í Íran segjast vera byrjuð að auðga úran. Vestræn ríki skora á Írana að stöðva slíka vinnslu.

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að tvöfalda umferðaröryggisgjald

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að tvöfalda svokallað umferðaröryggisgjald. Samgönguráðherra mælti fyrir frumvarpi þessa efnis síðdegis á föstudag, sama dag og fjármálaráðherra mælti fyrir frumvarpi um hækkun á ýmsum aukatekjum ríkissjóðs.

Fyrningarfrestur lengdur

Fyrningarfrestur vegna kynferðisbrota gegn börnum verður lengdur til muna samkvæmt frumvarpi sem dómsmálaráðherra kynnti í ríkisstjórn í morgun. Í sama frumvarpi er ákveðið að fara ekki sænsku leiðina og gera það refisvert að kaupa vændi.

Óttast stofnun leynilögreglu

Þingmenn stjórnarandstöðunnar efuðust um fyrirhugaða greiningardeild lögreglunnar sem rannsaka á landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins, á Alþingi í dag, en þingmennirnir telja að verið sé að setja á fót leyniþjónustu. Fyrsta umræða um frumvarp um breytingu á lögreglulögunum fór fram í dag.

Söluandvirði Hjálpum þeim um átta milljónir króna

Hjálparstarf kirkjunnar tók á móti átta milljóna króna styrk til hjálparstarfs í Pakistan í Grensáskirkju í dag. Söluandviðri smáskífunnar Hjálpum þeim var hátt á tíundu milljón en ríkið tekur um tvær milljónir í söluskatt.

Íslenskur maður og kona myrt í El Salvador

Íslendingur á fertugsaldri, Jón Þór Ólafsson, fannst myrtur í El Salvador í fyrradag. Á sama stað fannst einnig lík ungrar konu. Samkvæmt upplýsingum lögreglu í borginni San Salvador höfðu bæði verið skotin til bana.

Sonur Sharons í fangelsi

Omri Sharon, sonur Ariels Sharon forsætisráðherra Ísraels, var í dag dæmdur í níu mánaða fangelsi fyrir að hafa, með ólögmætum hætti, afla fé fyrir baráttu föðurs síns um formannsembætti Líkúd-bandalgsins árið 1999.

Grunaðir um að framleiða amfetamín

Tveir menn eru í haldi lögreglu hér á landi, grunaðir um að tengjast framleiðslu á amfetamíni. Þeir hafa báðir verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Annar mannanna var handtekinn á Keflavíkurflugvelli við komu til landsins þann fjórða febrúar síðastliðinn með torkennilegan vökva í fórum sínum. Báðir mennirnir eru frá Litháen.

Konur hugsi betur um hjartað

Konur verða að hugsa betur um hjartað í sér þar sem þær eiga ekki síður en karlar á hættu að fá hjarta- og æðasjúkdóma. Þetta eru skilaboð Alþjóðahjartasamtakanna og Hjartaverndar í dag, á Valentínusardaginn.

Íslendingur skotinn í El Salvador

Íslendingur á fertugsaldri, Jón Þór Ólafsson, sem starfaði í El Salvador, fannst látinn af völdum skotsára á mánudagsmorgun. Umfangsmikil leit hófst að Jóni Þór á sunnudag eftir að samstarfsmenn hans höfðu gert lögreglu í El Salvador viðvart. Jón Þór lætur eftir sig sambýliskonu og tvö ung börn á skólaaldri úr fyrri sambúð.

Basrabúar vilja hvorki danska né enska hermenn

Yfirvöld í Basra í Suður-Írak hafa beðið yfirvöld í Englandi og Danmörku að fjarlægja herafla sinn úr héraðinu. Englendingar eru óvelkomnir eftir að birt var myndband þar sem enskir hermenn sjást misþyrma hermanni og Dani vilja þeir ekki sjá fyrr en dönsk stjórnvöld hafa beðist múslima heimsins afsökunar á skopmyndunum alræmdu.

Múgur minnist Hariris

Meira en 200.000 manns hafa safnast saman á götum Beirúts, höfuðborgar Líbanons í morgun, til að minnast þess að ár er liðið síðan Rafik Hariri, fyrrverandi forsætisráðherra landsins var ráðinn af dögum. Öryggisgæsla í höfuðborginni hefur verið snarhert.

Kári blæs á gagnrýni

Kári Stefánsson blæs á gagnrýni á erfðarannsóknir í viðtali sem birtist í netútgáfu bandaríska tímaritsins Time. Hann segir þekkingu á erfðagöllum ómetanlega, jafnvel þó að ekki séu til lyf til að lækna gallann.

Nýr kosningavefur í loftið

Sérstakur kosningavefur á vegum félagsmálaráðuneytisins hefur opnað á vefslóðinni kosningar.is. Vefurinn er tileinkaður sveitarstjórnarkosningunum sem verða haldnar laugardaginn 27. maí 2006.

60 milljónir í varnaraðgerðir gegn fuglaflensu

Ríkisstjórnin ákvað í morgun að verja hátt í 60 milljónum króna í varnaraðgerðir gagnvart fuglaflensu ef hún verður að heimsfaraldri. Með þessu er búið að verja á annað hundrað milljónum króna í flensuvarnir.

Fagnar yfirlýsingum ráðherra um lækkun vörugjalda

Framkvæmdastjóri Félags íslenskra stórkaupmanna fagnar yfirlýsingum Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra um að lækka vörugjöld til þess að lækka matvælaverð. Hann segir þó að meira þurfi til eins og eitt virðisaukaskattþrep og virkt eftirlit með fákeppni á smásölumarkaði.

Þyngri dómar fyrir kynferðisafbrot

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra lagði fram lagabreytingarfrumvarp á ríkisstjórnarfundi í dag um að refsingar fyrir kynferðisafbrot verði hertar. Nái frumvarpið fram að ganga lengist fangelsisvist fyrir nauðgun og kynferðisafbrot gegn börnum og munu þessi brot geta varðað allt að sextán ára fangelsi, í stað sex ára eins og nú er hámarksrefsitími.

Harðfiski stolið

Tilkynnt var um innbrot í fiskverkunina Stjörnufisk í Grindavík í gærmorgun. Höfðu óprúttnir þjófar brotist inn í verkunina og stolið þaðan harðfiski.

Fimmtán særðust í tilræði í Istanbúl

Fimmtán særðust þegar sprengja sprakk í stórmarkaði í Istanbnúl seint í gærkvöld. Stór hluti stórmarkaðarins jafnaðist við jörðu og rúður splundruðust í nærliggjandi húsum

Auðgun úrans hafin á ný í Íran

Íransstjórn staðfesti í morgun að auðgun úrans hefði hafist á ný í landinu. Talsmaður íranskra stjórnvalda í kjarnorkumálum játaði því á blaðamannafundi í morgun að áætlun um auðgun úrans væri hafin samkvæmt samþykktum þingsins.

Réttarhöld vegna Munch-verka hefjast í dag

Réttarhöld hefjast í dag yfir sex manns sem taldir eru viðriðnir ránið á málverkunum Ópinu og Madonnu eftir Edvard Munch. Verkunum var rænt af Munch-safninu í Osló í ágúst árið 2004 en hvorki hefur fundist tangur né tetur af þeim.

Danir éti ofan í sig ófriðinn

Nýjasta hugmyndin til að lægja öldurnar í skopmyndamálinu er að Danir éti ofan í sig ófriðinn, í orðanna fyllstu merkingu. Framhaldsskólinn í Krögerup hefur sent af stað tölvukeðjubréf þar sem skorað er á Dani að leggjast á eitt og snæða arabískan mat á föstudaginn

Ástralar dæmdir til dauða fyrir heróínsmygl

Tveir Ástralar voru í morgun dæmdir til dauða fyrir stórt heróínsmygl frá í apríl á síðasta ári. Mennirnir tveir eru taldir höfuðpaurar níu manna hóps, sem reyndi að smygla rúmum átta kílógrömmum af heróíni frá Balí til Ástralíu.

Geitastofninn sagður í útrýmingarhættu

Geitastofninn á Íslandi er í útrýmingarhættu og eru nú aðeins 350 geitur í landinu, að sögn Bændablaðsins. Geitabændur fá greidda verndarstyrki á hverja geit, en það dugir ekki til enda eru afurðir geitanna lítið sem ekkert nýttar.

Áhyggjur af ölvunarakstri í Vestmannaeyjum

Lögreglan í Vestmannaeyjum hefur áhyggjur af auknum ölvunarakstri í bænum en aukning hefur verið frá fyrri árum. Það sem af er ári hafa þrír verið teknir fyrir ölvunarakstur en á sama tíma í fyrra var það aðeins einn og enginn árið þar á undan.

Segist hafa verið í hungurverkfalli

Saddam Hussein sagðist í morgun hafa verið í hungurverkfalli í þrjá daga til að mótmæla meðferðinni á sér við réttarhöldin sem nú standa yfir. Aðrir sem ákærðir eru í málinu segjast líka hafa verið í hungurverkfalli, en eins og kunnugt er hefur Saddam Hússein trekk í trekk mótmælt framkvæmd réttarhaldanna.

Hinn íslamski heimur hafi misskilið hugmyndir Dana

Hinn íslamski heimur hefur misskilið hugmyndir Dana um trú og spámanninn Múhameð, sagði Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, eftir fund með hófsömum múslímum í Danmörku í gær.

Drepa gísla ef þýsk stjórnvöld láta ekki af stuðningi

Írakskir mannræningjar hóta að drepa tvo gísla ef þýsk stjórnvöld hætta ekki öllum stuðningi við íröksk stjórnvöld. Á myndbandi sem birtist á Al-Arabiya sjónvarpsstöðinni sjást gíslarnir tveir ásamt mannræningjunum, sem lesa kröfur sínar.

Sluppu nær ómeiddir í hörðum árekstri

Tveir menn sluppu nær ómeiddir þegar bílar þeirra skullu harkalega saman á blindhæð á Ísólfsskálavegi á Reykjanesi í gærkvöldi og stór skemmdust.

Cheney ekki með tilskilið leyfi á veiðum

Dick Cheney, varaforseti Bandaríkjanna, virðist ekki laus allra mála vegna slyss um helgina þar sem hann skaut á veiðifélaga sinn á kornhænuveiðum. Í ljós hefur komið að Cheney hafði ekki tilskilið veiðileyfi þegar hann fór til veiða með milljarðamæringnum Harry Whittington sem hann svo skaut í andlitið og bringuna fyrir slysni.

Gamall sumarbústaður brennur í Norðlingaholti

Gamall sumarbústaður við Elliðabraut í Norðlingaholti brann til kaldra kola í gærkvöldi. Bústaðurinn er ekki lengur í notkun og mun borgin vera búin að kaupa hann til niðurrifs. Þegar slökkviliðið kom á vettvang var hann alelda og þakið við það að falla.

Krónan hækkaði mest gagnvart dalnum

Íslenska krónan hækkaði næstmest allra gjaldmiðla í heiminum gagnvart bandaríska dollaranum fyrstu vikuna í febrúar. Krónan hækkaði um rúmlega þrjú prósent gagnvart dollarnum og aðeins kanadíski dollarinn hækkaði meira í síðustu viku, eða um rösklega sex prósent.

Sjá næstu 50 fréttir