Innlent

Óvíst hvort skipulögð amfetamínframleiðsla fari fram á Íslandi

Ásgeir Karlsson, yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík
Ásgeir Karlsson, yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík MYND/Vilhelm

Tveir menn eru í haldi lögreglunnar, grunaðir um að tengjast framleiðslu á amfetamíni. Mennirnir, sem báðir eru Litháar, hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald til sautjánda febrúar.

Annar mannanna var handtekinn á Keflavíkurflugvelli við komu til landsins þann fjórða febrúar síðastliðinn. Í farangri hans fundust tvær áfengisflöskur sem innihéldu torkennilegan vökva. Daginn eftir var maðurinn úrskurðaður í gæsluvarðhald til sautjánda þessa mánaðar. Að sögn Ásgeirs Karlssonar, yfirmanns fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík, hefur rannsókn á vökvanum leitt í ljós að um er að ræða amfetamín á lokastigi framleiðslu.

Í gær var svo hinn maðurinn handtekinn í tengslum við málið og var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald í dag, einnig til sautjánda febrúar. Báðir mennirnir eru frá Litháen og eru þeir á fertugs- og fimmtugsaldri. Sá sem handtekinn var í gær hefur verið búsettur hér á landi í nokkur ár en að sögn Ásgeirs hefur hann ekki komið við sögu hjá fíkniefnadeildinni áður.

Aðspurður segir Ásgeir ekki hægt að álykta í ljósi þessa máls að skipulögð amfetamínframleiðsla fari fram hér á landi, þó vissulega sé óyggjandi að menn fikti við slíkt. Spurður hvort talið sé að fleiri tengist málinu segist Ásgeir ekkert geta sagt til um það á þessu stigi málsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×