Innlent

Nýr kosningavefur í loftið

MYND/Stefán Karlsson

Sérstakur kosningavefur á vegum félagsmálaráðuneytisins hefur opnað á vefslóðinni kosningar.is. Vefurinn er tileinkaður sveitarstjórnarkosningunum sem verða haldnar laugardaginn 27. maí 2006. Á vefnum er hægt að nálgast á einum stað allt sem snertir kosningarnar. Þar má finna upplýsingar og leiðbeiningar fyrir kjósendur, frambjóðendur, kjörstjórnir, sveitarfélög og fjölmiðla um helstu atriði sem tengjast kosningunum og framkvæmd þeirra.

Ennfremur er hægt að finna á vefnum úrslit síðustu tveggja sveitarstjórnarkosninga í einstökum sveitarfélögum auk annarra upplýsinga. Á vefnum segir að greiður aðgangur að upplýsingum sem snertir kosningar í landinu sé mikilvægur þáttur í þróun upplýsingasamfélagsins og til þess fallið að styrkja lýðræðið í landinu. Þar má finna svokallað jafnréttiskort en á því kemur fram að konur eru í meirihluta í tíu af níutíuogátta sveitarfélögum landsins en í sjö þeirra situr engin kona í sveitarsjórn. Á vefnum má finna sérstakt fyrirspurnarform og einnig algengustu svör og spurningar sem borist hafa varðandi sveitarstjórnarkosningarnar. Vefurinn verður uppfærður reglulega og verður efni hans aukið á næstu vikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×