Sport

HM í pílu: Littler flaug á­fram og kvöldinu lauk með spennu­trylli

Aron Guðmundsson skrifar
Luke Littler, ríkjandi heimsmeistari í pílukasti, þurfti ekki að hafa mikið fyrir sigrinum í 2.umferð HM í kvöld
Luke Littler, ríkjandi heimsmeistari í pílukasti, þurfti ekki að hafa mikið fyrir sigrinum í 2.umferð HM í kvöld Vísir/Getty

Luke Littler, ríkjandi heimsmeistari í pílukasti átti ekki í neinum vandræðum með að tryggja sér sæti í 3.umferð yfirstandandi heimsmeistaramóts í kvöld. 

Littler mætti hinum velska David Davies í Alexandra Palace í kvöld og endurtók leikinn frá því í fyrstu umferð mótsins með því að vinna öll settin á móti andstæðingi sínum í kvöld. 

Davies veitti Littler fína samkeppni í fyrsta setti þeirra en tilfinningin var sú að heimsmeistarinn væri einhvern veginn að malla í hægagangi. Hann þurfti ekki að hafa mikið fyrir hlutunum og flýgur áfram í næstu umferð og mætir þar Austurríkismanninum Mensur Suljovic sem var fyrr í dag sakaður um svindl af mótherja sínum Joe Cullen, samlanda Littler. 

Síðasta viðureign kvöldsins á HM var spennandi í meira lagi en þar mættust Ástralinn Damon Heta og Svisslendingurinn Stefan Bellmont í sannkölluðum spennutrylli.

Bellmont tók fyrsta settið 3-1 en Damon Heta svaraði með því að vinna annað settið á sama hátt og Bellmont tók það fyrsta. 

Bellmont svaraði með því að taka þriðja settið 3-1 en aftur svaraði Heta með 3-1 sigri í fjórða setti og stóðu því leikar jafnir 2-2 í settum og því allt undir í fimmta setti. 

Þar reyndist Damon Heta sterkari, hann kastaði fyrir 140 þrisvar sinnum í röð og bjó til nægilegt bil milli sín og Bellmont til þess að klára einvígið og tryggja sér sæti í næstu umferð. 

Damon Heta kom, sá og sigraði í spennutrylli kvöldsins á HM í pílukastiVísir/Getty

Önnur úrslit dagsins, þar á meðal óvænt úrslit sem sáu til þess að Gerwyn Price var sópað út úr mótinu, má lesa um í meðfylgjandi frétt:




Fleiri fréttir

Sjá meira


×