Breiða­blik - Shamrock Rovers 3-1 | Sex­tíu milljónir og fyrsti sigur í höfn

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Viktor Örn Margeirsson fagnar eftir jöfnunarmark sitt í kvöld.
Viktor Örn Margeirsson fagnar eftir jöfnunarmark sitt í kvöld. vísir/Diego

Breiðablik vann frábæran 3-1 sigur gegn Shamrock Rovers í Sambandsdeild Evrópu í fótbolta á Laugardalsvelli í kvöld. Þetta er fyrsti sigur liðsins í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar og hann færir liðinu 400.000 evrur, jafnvirði um 60 milljóna króna.

Graham Burke kom írsku meisturunum yfir á 32. mínútu en nánast strax í kjölfarið náði Viktor Örn Margeirsson að jafna metin fyrir Blika, eftir frábæra fyrirgjöf Óla Vals Ómarssonar.

Það var svo Óli Valur sjálfur sem kom Blikum yfir, korteri fyrir leikslok, áður en Kristinn Jónsson innsiglaði sigurinn með skoti af löngu færi í autt mark gestanna sem sent höfðu markvörðinn fram í von um jöfnunarmark úr hornspyrnu.

Breiðablik er því núna með fimm stig og á enn von um að komast áfram í útsláttarkeppnina en þarf væntanlega sigur gegn Strasbourg í Frakklandi í lokaumferðinni eftir viku.

Atvik leiksins

Þriðja mark Blika en Kristinn Jónsson skoraði í tómt mark af ansi löngu færi. Sjaldan hefur bolti verið jafn lengi að renna í netið. Virkilega sætt að sjá.

Kiddi Jóns fagnar sigurmarki Blika!Pawel Cieslikiewicz

Stjörnur og skúrkar

Óli Valur Ómarsson var ansi öflugur í kvöld fyrir Blika. Stoðsending í fyrsta markinu og skoraði svo frábært mark þegar Blikar náðu forystunni.

Óli Valur var allt í öllu í kvöld.Pawel Cieslikiewicz

Arnór Gauti Jónsson var flottur á miðjunni, fastur fyrir og lét finna vel fyrir sér.

Ágúst Orri Þorsteinsson er alltaf hættulegur fram á við með hraðann sinn og tæknilega færni.

Stemning og umgjörð

Umgjörðin er alltaf góð á Laugardalsvelli. Uppáhaldið mitt persónulega var Bæjarins Bestu básinn inni áður en farið er í stúkuna.

Það var fín mæting hjá stuðningsmönnum Blika og heyrðist vel í þeim. Það voru svo um það bil 250 írskir stuðningsmenn sem mættu á klakann til að horfa á sitt lið. Í upphafi leiks mátti heyrast vel í þeim en það dalaði í síðari hálfleiknum.

Stúkan á Laugardalsvelli í kvöld.Pawel Cieslikiewicz

Dómarar

Dómarateymi kvöldsins var frá Albaníu. Enea Jorgji var á flautunni, honum til aðstoðar voru Denis Rexha og Ridiger Cokaj. VAR dómarar voru þeir Gianluca Aureliano frá Ítalíu og honum til aðstoðar VAR Kreshnik Barjamaj. VAR kom hins vegar ekkert við sögu.

Flott dómgæsla en aðstæður voru auðvitað erfiðar. Engin vafamál og því gott kvöld fyrir Enea Jorgji.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira