Fótbolti

Vålerenga fór illa að ráði sínu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Vålerenga keypti Örnu Eiríksdóttur frá FH í september.
Vålerenga keypti Örnu Eiríksdóttur frá FH í september. getty/Domenico Cippitelli

Íslendingaliðið Vålerenga missti niður tveggja marka forystu gegn St. Pölten í Meistaradeild Evrópu í kvöld. Lokatölur í Osló, 2-2.

Arna Eiríksdóttir stóð vaktina í vörn Vålerenga sem byrjaði leikinn af miklum krafti og komst í 2-0 eftir átján mínútur. Karina Sævik og Olaug Tvedten skoruðu mörk norska liðsins.

Á lokamínútu fyrri hálfleiks minnkaði Kess Elmore muninn í 2-1 fyrir St. Pölten og Jennifer Klein jafnaði svo metin með marki úr vítaspyrnu á 56. mínútu.

Sædís Rún Heiðarsdóttir lék síðustu átta mínúturnar fyrir Vålerenga sem er í 11. sæti Meistaradeildarinnar, af átján liðum, með fjögur stig eftir fjóra leiki.

Alessia Russo var hetja Arsenal gegn Real Madrid.getty/Justin Setterfield

Arsenal, sem vann Meistaradeildina á síðasta tímabili, kom til baka og vann 2-1 sigur á Real Madrid. Alessia Russo skoraði bæði mörk Skyttanna sem eru í 8. sæti Meistaradeildarinnar með sex stig.

Manchester United vann fyrstu þrjá leiki sína í keppninni en fékk skell í kvöld þegar liðið sótti Wolfsburg heim. Lokatölur 5-2, þýska liðinu í vil.

Juventus og Lyon gerðu 3-3 jafntefli í miklum markaleik og Paris sigraði Benfica, 2-0. Lyon er á toppi Meistaradeildarinnar með tíu stig en Barcelona, Wolfsburg og United koma þar á eftir með níu stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×