Innlent

Ís­land ekki undan­þegið verndar­tollum ESB á kísilmálm

Kjartan Kjartansson skrifar
Járnblendiverksmiðja Elkem á Grundartanga.
Járnblendiverksmiðja Elkem á Grundartanga. Vísir

Fulltrúar Evrópusambandsins hafa gert íslenskum og norskum stjórnvöldum ljóst að þau verði ekki undanþegin verndartollum sambandsins á kísilmálm. Utanríkisráðuneytið segir ákvörðunina ekki endanlega.

Framkvæmdastjórn tilkynnti sameiginlegu EES-nefndinni um nýjar tillögur að verndartollum á innflutt járnblendi. Utanríkisráðuneytið segist í skriflegu svari við fyrirspurn Vísis vera kunnugt um þetta.

Ákvörðunin sé ekki endanleg en aðildarríki sambandsins þurfa að samþykkja hana. Verði það niðurstaðan að EES-ríkin verði ekki undanþegin tollunum skipti útfærsla aðgerðanna máli. Íslensk stjórnvöld verji áfram íslenska hagsmuni.

„Nú stendur yfir vinna í ráðuneytinu við að fara yfir tillögurnar og þýðingur þeirra fyrir Ísland og hin EES-EFTA-ríkin innan EES,“ segir í svarinu.

Ráðuneytið segir að utanríkismálanefnd Alþingis hafi verið upplýst um stöðuna um leið og fregnir bárust. Samtal eigi sér stað við haghafa hér á landi sömuleiðis.

Frestað í ágúst

Viðskiptaráðherra Noregs staðfesti við þarlenda ríkisútvarpið í dag að Noregur yrði ekki undanþeginn tollunum á járnblendi. Afstaða Norðmanna sé að það sé andstætt EES-samningnum sem bæði Noregur og Ísland eiga aðild að.

ESB frestaði ákvörðun um tolla á Ísland og Noreg í ágúst. Þá kom fram að þeir hefðu átt að gilda í tvö hundruð daga. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra, sagði þá að stjórnvöld hefðu fengið frestunina með hagsmunagæslu og góðu samtalið við ESB.

„Nú fáum við kærkomið svigrúm til að halda áfram að tala fyrir íslenskum hagsmunum og benda Evrópusambandinu á að við erum mikilvægur hluti af markaðnum. Þetta er samevrópskt verkefni, það eru ekki íslenskar eða norskar vörur sem trufla markaðinn,“ sagði Þorgerður Katrín í ágúst.

Fréttin hefur verið uppfærð með svörum utanríkisráðuneytisins um ákvörðun ESB.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×