Sneypuför danskra til Lundúna Siggeir Ævarsson skrifar 4. nóvember 2025 19:33 Micky van de Ven skoraði glæsilegt mark í kvöld. Getty/Carl Recine FC Kaupmannahöfn átti erfiða ferð til Lundúna í kvöld þegar liðið steinlá gegn Tottenham 4-0. Hinn 17 ára Viktor Bjarki Daðason kom inná í hálfleik en fékk úr litlu að moða. Tottenham komst í 2-0 eftir tvenn mistök Dominik Kotarski í marki FCK en í bæði skiptin fór hann í glórlaus úthlaup úr marki sínu og færði heimamönnum tvö mörk á silfurfati. Rúnar Alex Rúnarsson hefur eflaust hugsað honum þegjandi þörfina meðan hann sat á bekknum. Brennan Johnson fékk svo að líta beint rautt spjald eftir klaufalega tæklingu á 56. mínútu en það hjálpaði gestunum ekki neitt heldur þvert á móti. Tottenham skoraði í kjölfarið tvö mörk úr skyndisóknum, það fyrra einkar glæsilegt. Varnarmaðurinn Micky van de Ven fékk boltann við eigin vítateig, þeystist upp allan völlinn og kláraði færið svo eins og sjóaður framherji. João Palhinha bætti svo við öðru marki tveimur mínútum seinna og gerði endanlega út um leikinn. Hinn meinti markahrókur Richarlison kom inn af bekknum á 72. mínútu og gerði hvað hann gat til að opna markareikninginn sinn. Hann átti skalla í slá og tók svo vítaspyrnu í uppbótartíma en aftur fór boltinn í slána. 4-0 niðurstaðan í Lundúnum, fyllilega sanngjörn úrslit og Danirnir í raun stálheppnir að tapa ekki 6-0. Meistaradeild Evrópu í fótbolta karla
FC Kaupmannahöfn átti erfiða ferð til Lundúna í kvöld þegar liðið steinlá gegn Tottenham 4-0. Hinn 17 ára Viktor Bjarki Daðason kom inná í hálfleik en fékk úr litlu að moða. Tottenham komst í 2-0 eftir tvenn mistök Dominik Kotarski í marki FCK en í bæði skiptin fór hann í glórlaus úthlaup úr marki sínu og færði heimamönnum tvö mörk á silfurfati. Rúnar Alex Rúnarsson hefur eflaust hugsað honum þegjandi þörfina meðan hann sat á bekknum. Brennan Johnson fékk svo að líta beint rautt spjald eftir klaufalega tæklingu á 56. mínútu en það hjálpaði gestunum ekki neitt heldur þvert á móti. Tottenham skoraði í kjölfarið tvö mörk úr skyndisóknum, það fyrra einkar glæsilegt. Varnarmaðurinn Micky van de Ven fékk boltann við eigin vítateig, þeystist upp allan völlinn og kláraði færið svo eins og sjóaður framherji. João Palhinha bætti svo við öðru marki tveimur mínútum seinna og gerði endanlega út um leikinn. Hinn meinti markahrókur Richarlison kom inn af bekknum á 72. mínútu og gerði hvað hann gat til að opna markareikninginn sinn. Hann átti skalla í slá og tók svo vítaspyrnu í uppbótartíma en aftur fór boltinn í slána. 4-0 niðurstaðan í Lundúnum, fyllilega sanngjörn úrslit og Danirnir í raun stálheppnir að tapa ekki 6-0.