Íslenski boltinn

Leik­menn kusu Patrick og Guð­mund

Sindri Sverrisson skrifar
Guðmundur Baldvin Nökkvason með boltann í lokaleik tímabilsins í dag. Patrick Pedersen fékk sín verðlaun fyrir leik Víkings og Vals í gær.
Guðmundur Baldvin Nökkvason með boltann í lokaleik tímabilsins í dag. Patrick Pedersen fékk sín verðlaun fyrir leik Víkings og Vals í gær. Samsett/Ernir/KSÍ

Þrátt fyrir að ná bara að spila nítján leiki var Patrick Pedersen, framherji Vals, valinn besti leikmaður Bestu deildar karla í fótbolta í ár, af leikmönnum deildarinnar.

Patrick var magnaður í sumar og virtist á góðri leið með að slá markametið í efstu deild áður en hann meiddist í bikarúrslitaleiknum gegn Vestra í ágúst.

Fram að því hafði hann skorað 18 mörk í 19 leikjum og náð því mikla afreki að verða markahæsti leikmaður í sögu efstu deildar hér á landi, þegar hann tók fram úr Tryggva Guðmundssyni.

Hinn 21 árs gamli Guðmundur Baldvin Nökkvason var svo valinn efnilegasti leikmaður deildarinnar, og var heiðraður á leik Stjörnunnar við Breiðablik í dag – lokaleik tímabilsins.

Guðmundur Baldvin hefur þegar prófað fyrir sér í atvinnumennsku, með Mjällby í Svíþjóð, en sneri svo aftur til Stjörnunnar, fyrst að láni í fyrra og svo varanlega í kjölfarið.

Þessi öflugi miðjumaður skoraði sjö mörk í 24 leikjum í Bestu deildinni í ár og átti ríkan þátt í því að Stjarnan næði Evrópusæti með því að enda í 3. sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×