Fótbolti

Baulað á þjálfarann og Svíar á botninum

Sindri Sverrisson skrifar
Svislendingar fagna fyrra marki sínu gegn Svíum í kvöld.
Svislendingar fagna fyrra marki sínu gegn Svíum í kvöld. Getty/Mateusz Slodkowski

Baulað var á Jon Dahl Tomasson, landsliðsþjálfara Svía í fótbolta, fyrir leikinn mikilvæga við Sviss í undankeppni HM í kvöld. Sviss vann svo leikinn 2-0 og eru Svíar neðstir í sínum riðli.

Granit Xhaka kom Sviss yfir í Svíþjóð í kvöld með marki úr víti á 65. mínútu. Alexander Isak, Viktor Gyökeres, Lucas Bergvall og aðrar stjörnur sænska liðsins náðu aldrei að finna leiðina að marki Sviss og í uppbótartíma skoruðu gestirnir seinna mark sitt, þegar Johan Manzambi skoraði.

Sviss er efst í B-riðlinum eftir þrjár umferðir af sex, með níu stig. Kósovó er með fjögur, Slóvenía tvö og Svíþjóð neðst með eitt stig. Vonin um efsta sætið virðist því úr sögunni hjá Svíum en 2. sætið gefur sæti í umspili.

Þjóðverjar skoruðu fjögur

Í A-riðli vann Þýskaland 4-0 sigur gegn Lúxemborg þar sem Joshua Kimmich skoraði tvö mörk, það fyrra úr víti, eftir að David Raum hafði komið Þjóðverjum yfir. Serge Gnabry skoraði einnig.

Norður-Írland vann góðan 2-0 sigur gegn Slóvakíu og nú eru Þýskaland, Norður-Írland og Slóvakía með sex stig hvert eftir þrjár umferðir, en Lúxemborg án stiga.

Belgar náðu ekki að skora

Í J-riðli gerðu Belgía og Norður-Makedónía markalaust jafntefli en Kasakstan vann Liechtenstein 4-0. Norður-Makedónía er efst í riðlinum með 12 stig en Belgar eru með 11 stig og eiga leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×