Upp­gjör: Víkingur - Valur 3-0 | Sann­færandi heimasigur í rigningunni

Andri Már Eggertsson skrifar
Linda Líf skoraði sigurmarkið.
Linda Líf skoraði sigurmarkið. Vísir/Diego

Víkingur vann 3-0 sigur gegn Val á heimavelli. Linda Líf Boama kom Víkingum yfir í fyrri hálfleik en Ashley Jordan Clark kom inn á í seinni hálfleik og kláraði leikinn með tveimur mörkum. 

Leikurinn byrjaði með látum og strax á sjöundu mínútu fengu Víkingar vítaspyrnu. Tinna Brá Magnúsdóttir, markmaður Vals, gerði klaufaleg mistök þar sem hún fékk sendingu til baka og átti lélega fyrstu snertingu og reyndist brotleg í kjölfarið.

Tinna Brá var þó ekki langt niðri eftir þetta brot þar sem hún gerði sér lítið fyrir og varði vítaspyrnuna frá Bergdísi Sveinsdóttur.

Linda Líf Boama braut síðan ísinn á 27. mínútu og kom Víkingi yfir. Linda fékk góða sendingu inn fyrir frá Bergþóru Sól Ásmundsdóttur en Linda lék á Tinnu í marki Vals og skoraði.

Fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleik og staðan var 1-0.

Það var með ólíkindum að Víkingar hafi ekki bætt við öðru marki fyrsta korterið í seinni hálfleik. Fyrst komst Dagný Rún Pétursdóttir ein í gegn en átti skot framhjá. Síðan átti Freyja Stefánsdóttir skot í innanverða stöngina.

Ashley Jordan Clark kom inn á um miðjan seinni hálfleik og var ekki lengi að láta til sín taka. Hún skoraði tvö mörk og kláraði leikinn fyrir Víkinga. Alvöru markahrókur þar sem hún var vel staðsett á fjærstöng í bæði skiptin og þakkaði fyrir sig.

Fleiri urðu mörkin ekki og Víkingur vann 3-0 sigur.

Atvik leiksins

Innkoma Ashley Jordan Clark sem kom inn á sem varamaður á 69. mínútu. Ashley gerði tvö síðustu mörk Víkinga og kláraði leikinn.

Stjörnur og skúrkar

Linda Líf Boama fór á kostum í kvöld og fór illa með varnarlínu Vals þar sem hún hljóp ítrekað inn fyrir hana. Linda kom Víkingi yfir og lagði upp þriðja markið.

Ashley Jordan Clark kom inn á sem varamaður og lét það ekkert fara í taugarnar á sér að hafa byrjað á bekknum heldur skilaði hún tveimur mörkum á tæplega tuttugu mínútum.

Varnarlína Vals leit illa út á köflum þar sem Víkingar komust ítrekað inn fyrir hana og fengu töluvert af færum sem hefðu getað endað í fleiri mörkum.

Bergdís Sveinsdóttir brenndi af víti í stöðunni 0-0 en það kom ekki að sök í sigri Víkinga.

Dómarinn

Róbert Þór Guðmundsson dæmdi leik kvöldsins. Róbert negldi ákvörðunina um að dæma víti í upphafi leiks og var heilt yfir flottur á flautunni í kvöld. 

„Fannst orkustigið ekki eins og ég vildi hafa það“

Matthías Guðmundsson var svekktur eftir leikVísir/Diego

Matthías Guðmundsson, þjálfari Vals, var svekktur eftir 3-0 tap gegn Víkingi.

„Mér fannst Víkingur betri í dag. Við fengum auðvitað einhver færi en Víkingar voru betri. Við vorum að halda áfram með þriggja manna vörn og prófa okkur áfram en áttum í erfiðleikum með það sem ég tek á mig en svo fannst mér orkustigið ekki eins og ég vildi hafa það,“ sagði Matthías svekktur eftir leik. 

Valur var í þriggja manna varnarlínu sem Matthías viðurkenndi að Víkingar nýttu sér og þá sérstaklega Linda Líf Boama.

„Þær fóru mikið bakvið okkur sem við vissum alveg en boltinn þarf að komast á Lindu og það er spurning hvort þeir leikmenn sem náðu að gefa þessar sendingar fengu of mikinn tíma sem er talningaratriði. Við hefðum þó átt að gera betur það er engin spurning.“

Annað mark Víkings kom ekki fyrr en á 77. mínútu og Matthías var svekktur að hans lið hafi ekki skapað fleiri færi þegar það munaði aðeins einu marki.

„Ég hefði viljað fá fleiri færi. Mér fannst hugur í mannskapnum í hálfleik og ég hefði viljað fá fleiri færi í seinni hálfleik,“ sagði Matthías að lokum.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira