Fótbolti

Mikael, Kol­beinn og Stefán Ingi á skotskónum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Skoraði tvö og lagði upp eitt í átta marka leik.
Skoraði tvö og lagði upp eitt í átta marka leik. Djurgården

Kolbeinn Þórðarson, Mikael Anderson og Stefán Ingi Sigurðarson voru á skotskónum í góðum sigrum sinna liða í skandinavíska fótboltanum.

Kolbeinn Þórðarson gulltryggði Gautaborg 2-0 útisigur á Öster í efstu deild sænska boltans. Um var að ræða sjöunda mark Kolbeins á leiktíðinni og kom það þegar mínúta var til loka venjulegs leiktíma. Þessi markheppni miðjumaður var svo tekinn af velli skömmu síðar.

Gautaborg er í 4. sæti með 44 stig að loknum 25 leikjum.

Hinn 27 ára gamli Mikael skoraði fyrstu tvö mörk sín í efstu deild Svíþjóðar þegar Djurgården vann ótrúlegan 8-2 sigur á Sirius. Ofan á það lagði Mikael einnig upp eitt marka Djurgården. Landsliðsmaðurinn var tekinn af velli þegar rúmur stundarfjórðungur var til leiksloka.

Djurgården er í 7. sæti með 41 stig eftir 25 leiki.

Hættir ekki að skora

Stefán Ingi skoraði annað mark Sandefjord sem komst í 2-0 gegn Sandefjord á útivelli. Heimamenn jöfnuðu metin en Frederik Pedersen tryggði Sandefjord sigurinn með marki á 81. mínútu leiksins. Stefán Ingi hefur nú skorað 12 mörk á leiktíðinni.

Sigurinn lyftir Sandefjord upp í 6. sætið með 32 stig eftir 22 umferðir.

Mikilvægar sigrar hjá Elíasi Rafni og Emelíu

FC Midtjylland og HB Köge unnu mikilvæga sigra í efstu deildum danska fótboltans. Tveir Íslendingar komu við sögu í leikjunum.

Landsliðsmarkvörðurinn Elías Rafn Ólafsson stóð vaktina í marki Midtjylland sem vann 2-1 sigur á Randers. Sigurinn lyftir Midtjylland upp í 2. sætið með 21 stig þegar tíu umferðum er lokið.

Emelía Óskarsdóttir kom inn af bekknum í lokin þegar HB Köge vann 3-2 endurkomusigur á Nordsjælland á útivelli. Emelía kom inn fyrir gamla brýnið Nadiu Nadim sem skoraði fyrstu tvö mörk HB Köge í kvöld.

Köge er með 18 stig eftir sjö leiki á toppi efstu deildar kvenna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×