Erlent

Bein út­sending: Minningar­at­höfn Charlie Kirk

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Elon Musk og Donald Trump sátu hlið við hlið og ræddu saman. Ætli þetta sé ekki í fyrsta sinn sem þeir hittast eftir vinslit þeirra fyrr á árinu?
Elon Musk og Donald Trump sátu hlið við hlið og ræddu saman. Ætli þetta sé ekki í fyrsta sinn sem þeir hittast eftir vinslit þeirra fyrr á árinu? AP

Donald Trump Bandaríkjaforseti og JD Vance varaforseti eru meðal þeirra sem munu halda tölu á minningarathöfn til heiðurs Charlie Kirk í Arizona í dag. Athöfnin fer fram á State Farm leikvanginum sem rúmar um 63 þúsund manns og er troðfullur af fólki.

Charlie Kirk var skotinn til bana 10. september síðastliðinn á viðburði á vegum samtaka sinna Turning point USA, þar sem hann ræddi við háskólanemendur í Utah.

Formleg dagskrá minningarathafnarinnar hefst klukkan 18 að íslenskum tíma, en þangað til er verið að spila kristna rokktónlist á meðan leikvangurinn fyllist af fólki.

Leikvangurinn er smekkfullur af fólki og fólk er tekið að safnast saman fyrir utan hann og í kring. Lögregluyfirvöld búast við að gestirnir verði allt að tvö hundruð þúsund.

Donald Trump er á leið á svæðið, en hann sagði við fréttamenn fyrr í dag að dagurinn í dag verði erfiður. JD Vance varaforseti verður einnig á staðnum, ásamt Marco Rubio utanríkisráðherra, Pete Hegseth stríðsmálaráðherra og Eriku Kirk, ekkju Charlie, sem hefur tekið við stjórnartaumunum hjá samtökum Charlie.

Trump hefur sagt Kirk hafa spilað lykilhlutverk í endurkjöri hans í embætti forseta árið 2024, en Kirk, sem var gríðarlega vinsæll íhaldssamur áhrifavaldu, var yfirlýstur stuðningsmaður hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×