Uppgjörið: Þór/KA - Þróttur 0-1 | Keyra heim með sigur í farteskinu Einar Kárason skrifar 12. september 2025 17:17 Þróttur sótti sigur á Akureyri. Vísir/Diego Ágætlega var mætt í Bogann á Akureyri í kvöld þegar Þór/KA tók á móti Þrótti þar sem gestirnir fóru með sigurinn af hólmi, 0-1. Leikurinn var enn kornungur þegar fyrsta og eina mark leiksins leit dagsins ljós. Sierra Marie Lelii skoraði þá af stuttu færi eftir hornspyrnu Sæunnar Björnsdóttur á 4. mínútu. Sonja Björg Sigurðardóttir var nálægt því að jafna metin fyrir heimastúlkur en boltinn hafnaði í þverslánni eftir frábæra tilraun af um 30 metrum. Eftir tilraun Sonju gerðist í raun lítið það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Gestirnir héldu vel í boltann og þrýstu heimastúlkum niður á eigin vallarhelming en báðum liðum gekk illa að skapa sér góð færi. Leikið var hart og fóru spjöld á loft undir lok fyrri hálfleiks en þar á meðal nældi Sonja Björg sér í spjald fyrir brot á miðjum vellinum. Það átti eftir að reynast dýrkeypt en í þann mund sem dómari leiksins var að fara að flauta til hálfleiks féll Ellie Rose Moreno eftir viðskipti sín við Mollee Swift, markvörð Þróttara, og vildi heimaliðið fá vítaspyrnu. Ekkert var dæmt og flautað var til hálfleiks. Þá tók við undarleg atburðarás þar sem leikmenn og þjálfari Þór/KA gengu til dómarans sem varð til þess að Sonja Björg fékk að líta sitt síðara gula spjald og þar með rautt og ljóst að heimaliðið myndi spila síðari hálfleikinn manni færri. Þór/KA kom sterkara inn í síðari hálfleikinn og keyrðu upp hraðann í leiknum. Svo virtist vera sem það kæmi Þrótturum í opna skjöldu en gestirnir féllu aftar á völlinn og tíu heimastúlkur sóttu og sóttu. Þrátt fyrir aragrúa færa, bæði eftir hornspyrnur og úr opnum leik, gekk þeim illa að koma boltanum framhjá Mollee sem stóð vaktina í markinu með prýði. Bæði lið fengu sín færi en besta færi Þórs/KA fékk Unnur Dóra Bergsdóttir þegar hún skaut að marki með vinstri fæti úr teig en Mollee sá við henni með fætinum. Það var svo skömmu fyrir leikslok sem Amalía Árnadóttir fékk úrvalsfæri eftir frábæra fyrirgjöf Bríetar Jóhannsdóttir en skalli Amalíu beint í hendur Mollee. Eftir fjörugan síðari hálfleik var flautað til leiksloka og sigurinn Þróttara en Akureyringar hafa nú einungis unnið einn af síðustu sjö leikjum sínum. Atvik leiksins Að markinu undanskildu var það klárlega sú ringulreið sem skapaðist eftir að flautað var til hálfleiks og Sonja fékk að líta reisupassann. Stjörnur og skúrkar Mollee Swift átti afbragðsleik í marki gestanna og steig upp þegar Þróttur þurfti á henni að halda. Katie Cousins var sömuleiðis spræk og átti nokkrar snyrtilegar rispur upp völlinn. Það ber að hrósa liði Þórs/KA hvernig þær komu inn í síðari hálfleikinn manni færri eftir dapran fyrri hálfleik. Sonja Björg verður hins vegar að taka skúrkinn á sig þar sem hún skilur liðsfélaga sína eftir tíu á vellinum í leik sem skipti ansi miklu í stóra samhenginu. Dómari leiksins Dómari leiksins, Sveinn Arnarsson, hefur sennilega átt betri daga á flautunni en í kvöld. Bæði lið virtust ósátt við ansi margt, þá sér í lagi heimaliðið. Stemning og umgjörð Ágætlega var mætt í Bogann og heyrðist nokkuð vel í stúkunni mest allan leikinn. Í upphafi var það „áfram Þór/KA“ en fljótlega breyttist það yfir í fúkyrði og dónaleg/ljót köll í átt að dómara leiksins. Það hafa eflaust margir ungir iðkendur lært ný miður falleg orð í Boganum í kvöld. Án dómara er enginn leikur. Besta deild kvenna Þór Akureyri KA Þróttur Reykjavík
Ágætlega var mætt í Bogann á Akureyri í kvöld þegar Þór/KA tók á móti Þrótti þar sem gestirnir fóru með sigurinn af hólmi, 0-1. Leikurinn var enn kornungur þegar fyrsta og eina mark leiksins leit dagsins ljós. Sierra Marie Lelii skoraði þá af stuttu færi eftir hornspyrnu Sæunnar Björnsdóttur á 4. mínútu. Sonja Björg Sigurðardóttir var nálægt því að jafna metin fyrir heimastúlkur en boltinn hafnaði í þverslánni eftir frábæra tilraun af um 30 metrum. Eftir tilraun Sonju gerðist í raun lítið það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Gestirnir héldu vel í boltann og þrýstu heimastúlkum niður á eigin vallarhelming en báðum liðum gekk illa að skapa sér góð færi. Leikið var hart og fóru spjöld á loft undir lok fyrri hálfleiks en þar á meðal nældi Sonja Björg sér í spjald fyrir brot á miðjum vellinum. Það átti eftir að reynast dýrkeypt en í þann mund sem dómari leiksins var að fara að flauta til hálfleiks féll Ellie Rose Moreno eftir viðskipti sín við Mollee Swift, markvörð Þróttara, og vildi heimaliðið fá vítaspyrnu. Ekkert var dæmt og flautað var til hálfleiks. Þá tók við undarleg atburðarás þar sem leikmenn og þjálfari Þór/KA gengu til dómarans sem varð til þess að Sonja Björg fékk að líta sitt síðara gula spjald og þar með rautt og ljóst að heimaliðið myndi spila síðari hálfleikinn manni færri. Þór/KA kom sterkara inn í síðari hálfleikinn og keyrðu upp hraðann í leiknum. Svo virtist vera sem það kæmi Þrótturum í opna skjöldu en gestirnir féllu aftar á völlinn og tíu heimastúlkur sóttu og sóttu. Þrátt fyrir aragrúa færa, bæði eftir hornspyrnur og úr opnum leik, gekk þeim illa að koma boltanum framhjá Mollee sem stóð vaktina í markinu með prýði. Bæði lið fengu sín færi en besta færi Þórs/KA fékk Unnur Dóra Bergsdóttir þegar hún skaut að marki með vinstri fæti úr teig en Mollee sá við henni með fætinum. Það var svo skömmu fyrir leikslok sem Amalía Árnadóttir fékk úrvalsfæri eftir frábæra fyrirgjöf Bríetar Jóhannsdóttir en skalli Amalíu beint í hendur Mollee. Eftir fjörugan síðari hálfleik var flautað til leiksloka og sigurinn Þróttara en Akureyringar hafa nú einungis unnið einn af síðustu sjö leikjum sínum. Atvik leiksins Að markinu undanskildu var það klárlega sú ringulreið sem skapaðist eftir að flautað var til hálfleiks og Sonja fékk að líta reisupassann. Stjörnur og skúrkar Mollee Swift átti afbragðsleik í marki gestanna og steig upp þegar Þróttur þurfti á henni að halda. Katie Cousins var sömuleiðis spræk og átti nokkrar snyrtilegar rispur upp völlinn. Það ber að hrósa liði Þórs/KA hvernig þær komu inn í síðari hálfleikinn manni færri eftir dapran fyrri hálfleik. Sonja Björg verður hins vegar að taka skúrkinn á sig þar sem hún skilur liðsfélaga sína eftir tíu á vellinum í leik sem skipti ansi miklu í stóra samhenginu. Dómari leiksins Dómari leiksins, Sveinn Arnarsson, hefur sennilega átt betri daga á flautunni en í kvöld. Bæði lið virtust ósátt við ansi margt, þá sér í lagi heimaliðið. Stemning og umgjörð Ágætlega var mætt í Bogann og heyrðist nokkuð vel í stúkunni mest allan leikinn. Í upphafi var það „áfram Þór/KA“ en fljótlega breyttist það yfir í fúkyrði og dónaleg/ljót köll í átt að dómara leiksins. Það hafa eflaust margir ungir iðkendur lært ný miður falleg orð í Boganum í kvöld. Án dómara er enginn leikur.