Innlent

Allir gangi hamingju­samir úr nýjustu sund­laug landsins

Bjarki Sigurðsson skrifar
Svanur Már Scheving er vaktstjóri í Stapalaug.
Svanur Már Scheving er vaktstjóri í Stapalaug. Vísir/Bjarni

Nýjustu sundlaug landsins má finna í Stapaskóla í Njarðvík. Laugin nýja þykir einkar glæsileg, en skólinn er orðinn að eins konar félagsmiðstöð fyrir íbúa.

Sundlaugin var opnuð um miðjan júnímánuð en fjögur ár eru síðan tilkynnt var að byggja ætti laug í húsnæði skólans. Upphaflega stóð til að framkvæmdatíminn væri fimmtán mánuðir en þær drógust á langinn. 

Aðstaðan samanstendur af tuttugu og fimm metra innilaug, tveimur heitum pottum, köldum potti, gufubaði og innfrarauðri sánu. Svanur Már Scheving, vakstjóri í lauginni, segir það stórt verkefni að opna sundlaug, en allt hafi gengið vel.

„Ég hef bara heyrt um jákvæðar upplifanir. Svo koma gestir og koma með góðar ábendingar, sem við tökum vel. Þetta er bara mjög skemmtilegt,“ segir Svanur.

Kaldi potturinn þykir afar glæsilegur.Vísir/Bjarni

Sundlaugin er afar falleg, og ekki skemmir stórkostlegt útsýni úr heitu pottunum.

„Þetta hefur vel tekist til. Þetta er bara meiriháttar, og svo útsýnið. Að vera hérna í sól, það er bara alveg geggjað,“ segir Svanur. 

Í byggingu skólans er einnig íþróttahús þar sem körfuknattleikslið Njarðvíkur æfir og spilar heimileiki sína. Þá er þar einnig bókasafn þar sem fólk á öllum aldri kemur saman. Stapaskóli því orðinn að alvöru samkomustað fyrir íbúa Njarðvíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×