Sport

Endaði á sjúkra­húsi eftir á­rás frá kú

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Alonso Martínez birti líka mynd af kúnni eða svo höldum við.
Sara Alonso Martínez birti líka mynd af kúnni eða svo höldum við. @saraalonso5

Spænska hlaupakonan Sara Alonso Martínez segir frá óskemmtilegri lífsreynslu á æfingu hjá sér á dögunum.

Hin 26 ára gamla Sara Alonso var góðum gír í ár og vann Zegama-Aizkorri fjallamaraþonið í lok maí.

Hún hleypur ekki mikið á næstunni eftir árás frá kú.

„Ég hélt hún ætlaði að drepa mig,“ skrifaði Sara Alonso á samfélagsmiðlinum Instagram.

Æfingin var nýhafin þegar ósköpin dundu yfir. Hún ætlaði að hlaupa um sveitina en hugsar sig örugglega tvisvar um næst.

„Nánast um leið og ég byrjaði æfinguna mína þá réðst hún á mig. Þetta hljómar kannski eins og einhver brandari en þegar ég kom á sjúkrahúsið þá frétti ég af tveimur öðrum eins atvikum,“ skrifaði Sara.

Alonso var að undirbúa sig fyrir Mont-Blanc ofurhlaupið sem fer fram í lok ágúst. Nú lítur út fyrir að árásin verði til þess að hún missi af því.

Sara rifbeinsbrotnaði og þarf að hvíla næstu vikurnar.

„Þetta var ein af mest ógnvekjandi stundum á ævi minni. Ég hélt um tíma að hún ætlaði ekki að hætta að keyra á mig fyrr en ég væri dauð,“ skrifaði Sara.

Hún slapp þú lifandi en var flutt á sjúkrahús. Mikið marin á fótum og efri hluta líkamans auk rifbeinsbrotsins.

„Ég vona að endurhæfingin mín gangi vel og að ég geti haldið áfram að keppa eitthvað í heimsbikarnum í ár,“ skrifaði Sara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×