Innlent

Sjúk­lingum Land­spítala fjölgaði um 4.500 milli ára

Atli Ísleifsson skrifar
Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítalans, hélt tölu á ársfundinum.
Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítalans, hélt tölu á ársfundinum. Þorkell Þorkelsson

Landspítali tók á móti 4.500 fleiri sjúklingum á árinu 2023 en árið á undan. Það jafngildi því að spítalinn sinni tólf fleiri einstaklingum á degi hverjum en árið áður.

Þetta kom fram á ársfundi Landspítalans sem fram fer í Silfurbergi í Hörpu í dag. Í tilkynningu frá spítalnum segir að samhliða hafi unnum stöðugildum í raun fækkað um 0,7 prósent þegar tekið sé tillit til vinnutímastyttingar, þótt starfsfólki hafi fjölgað. 

„Hlutfallslega hefur erlendum sjúklingum fjölgað meira en sjúklingum með íslenskt ríkisfang eða um ríflega 15% milli ára, að meðtöldum ferðamönnum Langstærstur hluti sjúklinga Landspítala sækir dag- og göngudeildarþjónustu spítalans en eingöngu um 15% þettsjúklinga þarfnast innlagnar.

Líkt og á við um aðrar heilbrigðisstofnanir, hérlendis sem erlendis, er mönnun ein af stærstu áskorunum Landspítala. Fjölgun starfsfólks, sem nemur 2,5% milli 2022 og 2023, er nánast af helmingi borin uppi af fólki með erlent ríkisfang og ljóst er að án aðflutts starfsfólks væri mönnunarvandi Landspítala alvarlegri en ella. Á spítalanum starfar fólk af 69 þjóðernum og er stærstur hluti þess hóps frá Filippseyjum og næststærsti frá Póllandi.

Hægt er að fylgjast með ársfundinum í spilaranum að neðan. 

Yfirskrift ársfundar Landspítala í ár er „Þróun í takt við þarfir sjúklinga“. Ávörp flytja Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala, og Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. Gunnar Ágúst Beinteinsson, framkvæmdastjóri rekstrar og mannauðs spítalans, kynnir ársreikning og fer yfir lykiltölur í starfsemi spítalans. Einnig eru á dagskrá þrjú erindi og pallborðsumræður, auk árlegra heiðrana starfsfólks spítalans.

Í ávarpi sínu leggur Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala, áherslu á þróun tæknilausna til að bregðast við aukinni eftirspurn eftir þjónustu samhliða skorti á starfsfólki, en Landspítali hefur náð góðum árangri í þróun stafrænna lausna. Tryggja þurfi að tími starfsfólks nýtist til samskipta við sjúklinga og aðstandendur eftir því sem fremst er unnt, en eins og staðan er í dag fari of mikill tími í tölvuvinnu sem mætti gera skjótvirkari, m.a. með vel völdum tæknilausnum. Til þess þurfi að fjárfesta í stafrænni tækni og tryggja trausta stefnumótun á landsvísu. Runólfur fjallar einnig um mikilvægi þess að starfsfólk leggi sig fram um að hlusta á sjúklinga, sem bæði eykur líkur á betri þjónustu og eflir traust til spítalans. Þá áréttar Runólfur mikilvægi vísindarannsókna og menntunar sem eru lykilhlutverk Landspítala sem háskólasjúkrahúss.

Í máli bæði Runólfs og Gunnars kemur fram að rekstur spítalans hefur tekið stakkaskiptum á liðnum árum. Skurðaðgerðum fjölgaði til að mynda um 8% milli 2022 og 2023 og aukning var á bæði innlögnum og heimsóknum á dag- og göngudeildir. Innleiðing þjónustutengdrar fjármögnunar hefur gengið vel á spítalanum en árið 2023 var fyrsta árið sem greitt var eftir samningi við stjórnvöld um þjónustutengda fjármögnun. Hún er mikilvægur liður í því að spítalinn geti sýnt fram á unnin verk og fengið greiðslur fyrir aukna þjónustu,“ segir í tilkynningunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×