Sport

Björg fyrsta konan til að verða for­maður Kefla­víkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björg Hafsteinsdóttir, nýr formaður Keflavíkur, sést hér með fráfarandi formanni Einari Haraldssyni.
Björg Hafsteinsdóttir, nýr formaður Keflavíkur, sést hér með fráfarandi formanni Einari Haraldssyni. Vísir/Garðar

Björg Hafsteinsdóttir var í gær kjörin nýr formaður íþrótta- og ungmennafélags Keflavíkur.

Þetta eru tímamót enda verður Björg fyrsta konan til að setjast í formannsstólinn hjá Keflavík.

Hún tekur við starfinu af Einari Haraldssyni sem hefur verið formaður Keflavíkur frá árinu 1998 eða í 26 ár.

Einar Haraldsson var áður varaformaður félagsins í fjögur ár og hefur því verið í forystu félagsins í þrjá áratugi.

Björg hefur verið stjórnarmaður í félaginu undanfarin ár.

Hún er ein besta körfuboltakonan í sögu Keflavíkur og besta þriggja stiga skytta sinnar kynslóðar.

Björg var í fyrsta Íslandsmeistaraliði Keflavíkur í körfunni og varð alls sjö sinnum Íslandsmeistari og átta sinnum bikarmeistari með félaginu.

Björg var kosin leikmaður ársins 1990 og var alls sex sinnum valin í úrvalslið ársins. Hún lék 196 leiki fyrir Keflavík í efstu deild og skoraði í þeim 2559 stig og 377 þriggja stiga körfur. Björg lék einnig knattspyrnu með Keflavík.

Hún lék alls 33 landsleiki og átti mjög lengi metið yfir flestar þriggja stiga körfur í bæði efstu deild kvenna sem og hjá A-landsliðinu. Hún var valin í lið aldarinnar þegar það var valið árið 2000.

Birgir Már Bragason hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Keflavíkur, íþrótta- og ungmennafélags, en því starfi hefur Einar einnig sinnt frá árinu 1999. Björg tók við sem formaður á fundinum en Birgir tekur við sem framkvæmdastjóri þegar Einar lætur af störfum 30. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×