Sport

Pabbi Littlers lét hann hætta í fót­bolta níu ára

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Luke Littler hefur farið í ófá viðtöl undanfarna daga.
Luke Littler hefur farið í ófá viðtöl undanfarna daga. getty/James Manning

Eins og svo marga krakka dreymdi Luke Littler um að verða atvinnumaður í fótbolta. Pabbi hans sannfærði hann hins vegar um að einbeita sér að pílukastinu.

Littler sló í gegn og vakti heimsathygli fyrir frammistöðu á HM í pílukasti. Þessi sextán ára strákur komst alla leið í úrslit mótsins þar sem hann laut í lægra haldi fyrir Luke Humphries. Frammistaða Littlers á HM skilaði honum sæti í úrvalsdeildinni í pílukasti þar sem hann mætir bestu pílukösturum heims reglulega.

Littler átti sér þó draum um að verða atvinnumaður í fótbolta, eins og svo margir krakkar. En pabbi hans sá meiri möguleika fyrir strákinn í pílukastinu og fékk hann til að hætta í fótbolta þegar hann var níu ára.

„Ég gerði mér ekki grein fyrir að ég yrði svona góður. Ég spilaði fótbolta áður og allir krakkar vildi ég verða fótboltamaður. Pabbi sagði við mig að leggja skóna á hilluna og einbeita mér að pílukastinu. En ég sagðist elska fótboltann,“ sagði Littler.

„Pabbi sagði: Ég held að þú eigir góða möguleika á að verða atvinnumaður. Og nokkrum árum seinna er ég hér.“

Pabbi Littlers, Anthony Buckley, sagði að Littler hefði verið fínasti fótboltamaður en möguleikar hans hafi verið meiri í pílukastinu. Og það er ekki hægt að segja annað en að það hafi verið rétt metið hjá honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×