Erlent

„Van Gogh-stjórinn“ til­búinn að láta „Taí­van“ af hendi

Jón Þór Stefánsson skrifar
Taívan-eyjan er við strendur Dubai, í eyjaklasa sem á að líkja eftir heimskorti, þó það sjáist líklega ekki á þessari mynd. Þess má geta að Íslands-eyja er ekki í klasanum.
Taívan-eyjan er við strendur Dubai, í eyjaklasa sem á að líkja eftir heimskorti, þó það sjáist líklega ekki á þessari mynd. Þess má geta að Íslands-eyja er ekki í klasanum. EPA

Sakborningur í umfangsmiklu dómsmáli á Ítalíu hefur boðið stjórnvöldum landsins eyju sem hann á við strönd Dubai, stærstu borgar Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Það gerir hann í von um að fá vægari dóm.

Nafn mannsins er Raffaele Imperiale og hann er grunaður um að hafa staðið í innflutningi á fíkniefnum, sérstaklega kókaíni frá Perú, en því er haldið fram að starfsemi hans hafi verið ein sú umfangsmesta í heimi.

The Guardian fjallar um málið, en Raffaele er sagður eiga yfir höfði sér tæplega fimmtán ára dóm. Réttarhöld í máli hans og tuttugu annara standa nú yfir í Napólí-borg.

Raffaele er sagður hafa verið samstarfsfús yfirvöldum. Til að mynda gaf hann lögreglu tvö málverk, eftir hollenska listmálarann Vincent Van Gogh, árið 2016. Hann hafði haft þau til sýnis á heimili sínu í Dubai, en nú er þau komin á vegg Van Gogh-safnsins í Amsterdam.

Um er að ræða málverkin Congregation Leaving the Reformed Church in Nuene frá 1884 og View of the Sea at Scheveningen frá 1882.

Málverkunum hafði verið stolið úr listasafni í Amsterdam árið 2002. Fyrir vikið hlaut Raffaele viðurnefnið „Van Gogh-stjórinn“.

Ekki nóg með það heldur býður hann nú yfirvöldum eyju, líkt og áður segir. Um er að ræða eyju sem er í manngerðum eyjaklasa við strendur Dubai. Eyjaklasinn heitir Heimurinn, en eyjunum er gert að líka eftir heimskorti.

Eyja Raffaele stendur fyrir Taívan á heimskortinu, enda heitir eyjan það sama. Hún er verðmetin á níu til tólf milljarða íslenskra króna.

Raffaele vonast eftir því að fá vægari dóm fyrir vikið. Saksóknari segir að nú sé boð hans til skoðunar, en ljóst sé að tilraun hans til málamiðlunar sé einlæg.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×