Lífið

Zara Larsson með tónleika í Höllinni

Atli Ísleifsson skrifar
Zara Larsson hitaði upp fyrir Ed Sheeran á tónleikum hans á Laugardalsvelli í ágúst 2019.
Zara Larsson hitaði upp fyrir Ed Sheeran á tónleikum hans á Laugardalsvelli í ágúst 2019. EPA

Sænska tónlistarkonan Zara Larsson mun halda stórtónleika í Laugardalshöllinni laugardaginn 16. mars 2024.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Senu. Þar segir að Zara sé með milljarða spilana á streymisveitum, fjöldan allan af platínumplötum og gríðarlega stóran aðdáendahóp um heim allan. 

Hún hélt vel heppnaða og uppselda tónleika í Laugardalshöll árið 2017 og hitaði svo upp fyrir Ed Sheeran á Laugardalsvellinum 2019. Hún er því öllum landsmönnum góðkunnug og mikill fengur í að fá hana aftur til landsins.

Sænska söngdívan heldur áfram að senda frá sér grípandi smelli sem aðdáendur hennar um allan heim elska,“ segir í tilkynningunni.

Zara Larsson sló í gegn ung að árum í Svíþjóð eftir að hafa unnið hæfileikaþáttinn Talang í sænsku sjónvarpi árið 2008, þá tíu ára að aldri. 

Meðal þekktra laga hennar eru Lush Life (2015), Never Forget You (2015), Girls Like (2016), Ain't My Fault (2016), Symphony (2017) og Ruin My Life (2018).

Almenn miðasala hefst 9. nóvember klukkan 10 en forsala Senu Live sólarhring fyrr. Miðaverð verður á bilinu 15.990 til 24.990 krónur.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×