Sport

Faðir norsku hlaupa­bræðranna biður eigin­konuna af­sökunar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Filip Ingebrigtsen, Jakob Ingebrigtsen og Henrik Ingebrigtsen eftir hlaup á HM í Doha 2019.
Filip Ingebrigtsen, Jakob Ingebrigtsen og Henrik Ingebrigtsen eftir hlaup á HM í Doha 2019. Getty/Maja Hitij

Gjert Ingebrigtsen gat ekki haldið áfram að þjálfa syni sína því fjölskyldulífið var að fara til fjandans.

Ingebrigtsen bræðurnir eru margverðlaunaðir hlauparar en þeir heita Jakob, Filip og Henrik. Bræðurnir eru fæddir á árunum 1991 til 2000.

Sá yngsti, Jakob, er Ólympíumeistari, tvöfaldur heimsmeistari og áttfaldur Evrópumeistari. Henrik og Filip hafa orðið Evrópumeistarar og Filip hefur einnig unnið verðlaun á HM.

Faðir þeirra Gjert Ingebrigtsen þjálfaði þá alla tíð eða þangað til í fyrra þegar hann hætti skyndilega sem þjálfari þeirra.

Gjert kom í hlaðvarpsþáttinn „Skyld og Skam“ og fór yfir það sem var í gangi á þessum tíma. Það vissu allir að hann var mjög harður við strákana en nú lítur út fyrir að hann hafi farið langt yfir strikið og bræðurnir hafi fengið algjörlega nóg.

Hann viðurkennir að þetta var ákvörðun sonanna með það markmið að eyðileggja ekki algjörlega samband feðganna. Vandamálið var ekki nýtt á nálinni þegar samstarfið endaði.

„Nei það tók þá langan tíma að fá mig til að hætta. Svona samstarf skapar ágreining og býr til sár sem gróa ekki. Þú áttar þig ekki á því hversu alvarlegt þetta eða hversu djúp þessi sár eru. Þú heldur bara áfram og býrð þá til ný. Allt í einu er fullt af sárum og út um allt,“ sagði Gjert Ingebrigtsen.

Hann segir að eitt stærsta fórnarlambið hafi í raun verið eiginkona hans og móðir strákanna en hún heitir Tone.

Hann vildi því biðja hana afsökunar en hún varð á milli í fjölskylduerjunum.

„Hún ber mikinn sársauka vegna alls þessa. Hún heldur mér gangandi og heldur strákunum gangandi,“ sagði Ingebrigtsen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×