Erlent

Vonuðust til þess að drottningin myndi tala um fyrir John­son

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Framganga Johnson vakti áhyggjur meðal opinberra starfsmanna stjórnkerfisins. Hann neyddist síðar til að segja af sér, meðal annars vegna partýstands í miðjum kórónuveirufaraldri.
Framganga Johnson vakti áhyggjur meðal opinberra starfsmanna stjórnkerfisins. Hann neyddist síðar til að segja af sér, meðal annars vegna partýstands í miðjum kórónuveirufaraldri. AP/Kirsty Wigglesworth

Háttsettir embættismenn í Bretlandi áttu samtöl við fulltrúa Buckingham-hallar um framgöngu Boris Johnson þegar hann var forsætisráðherra og ræddu meðal annars möguleikann á því að málið yrði tekið upp á reglulegum fundum Johnson og Elísabetar drottningar.

Þetta kemur fram í nýjum heimildarþáttum BBC.

Ekki er greint frá því nákvæmlega hvað það var sem fór fyrir brjóstið á embættismönnum en vitað er að mikill rígur var á milli Dominic Cummings, helsta ráðgjafa Johson á þessum tíma, og Mark Sedwill, æðsta yfirmanns opinberrar þjónustu.

Einn viðmælandi segir í þáttunum Laura Kuenssberg: State of Chaos að það hafi þurft að minna Johnson á stjórnarskrána.

Heimildarþættirnir fjalla um tímabilið frá því að Bretar ákváðu að ganga úr Evrópusambandinu og þar til Johnson sagði af sér og Liz Truss tók við sem forsætisráðherra í skamman tíma.

Samtölin milli embættismannanna og konungshallarinnar eru sögð hafa átt sér stað í maí 2020, við upphaf kórónuveirufaraldursins.

Í þættinum segir að á tíma þar sem mikil spenna ríkti í samskiptum pólitísks teymis Johnson og opinberra starfsmanna innan stjórnkerfisins hafi samskiptin milli starfsmanna Downing-strætis og Buckingham-hallar verið meiri en venjulega.

Vonir hafi staðið til að samskiptin yrðu til þess að Elísabet drottning myndi ræða áhyggjur starfsmannanna við Johnson á reglulegum fundum þeirra.

Einn heimildarmaður segir andrúmsloftið í Downing-stræti hafa verið ömurlegt og samskiptin „eitruð“.

Þá hefðu fulltrúar Buckingham-hallar lýst áhyggjum í kjölfar þess að Johnson frestaði þingstörfum sumarið 2019, í nafni drottningarinnar, en ákvörðun Johnson var seinna úrskurðuð ólögmæt.

Hér má finna ítarlega umfjöllun Guardian um málið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×