Erlent

Hermenn handtóku forseta Gabon

Samúel Karl Ólason skrifar
Hermenn tilkynntu í morgun að þeir hefðu handtekið forseta Gabon og ætluðu sér að taka völd í landinu og snúa úrslitum nýlegra kosninga.
Hermenn tilkynntu í morgun að þeir hefðu handtekið forseta Gabon og ætluðu sér að taka völd í landinu og snúa úrslitum nýlegra kosninga. AP/Gabon 24

Hópur hermanna í Gabon segist hafa handsamað Ali Bongo, forseta landsins. Þrátt fyrir að Bongo hafi kallað eftir mótmælum vegna handtöku hans virðist sem íbúar landsins hafi tekið handtökunni fagnandi.

Hermennirnir segja að þeir ætli sér að taka völd í landinu til að snúa úrslitum forsetakosninga sem haldnar voru nýverið og Bongo vann. Alþjóðlegir eftirlitsaðilar hafa gagnrýnt framkvæmt kosninganna harðlega.

Bongo fjölskyldan hefur stjórnað Gabon, sem er ríkt af olíu, í meira en fimm áratugi.

AP fréttaveitan segir að reiði í garð Bongo-fjölskyldunnar hafi verið mikil um árabil. Sérfræðingur í málefnum Afríku sagði fréttaveitunni að valdaránið kæmi ekki á óvart en að líklega megi rekja uppruna þess til nokkurra valdarána á Sahel-svæðinu svokallaða á undanförnum árum.

Ali Bongi, forseti Gabon. Fjölskylda hans hefur stjórnað landinu í meira en hálfa öld en útlit er fyrir að almenningur hafi tekið handtöku hans fagnandi.AP/Mary Altaffer

Samkvæmt AP brutust út fagnaðarlæti á götum Libreville, höfuðborgar Gabon, í morgun og sungu íbúar þjóðsönginn með hermönnum.

Hermennirnir segjast ætla að leysa upp allar opinberar stofnanir landsins og að óábyrg stjórnun landsins hafi leitt það í ógöngur. Forsetinn hefur verið settur í stofufangelsi og er herinn einnig búinn að handtaka samstarfsmenn hans og minnst einn son en þeir eru sakaðir um svik og stuld, svo eitthvað sé nefnt.

Í frétt BBC segir að Bongo fjölskyldan hafi lengi verið sökuð um arðrán í Gabon, sem er aðili að OPEC, sambandi olíuframleiðenda. Þrátt fyrir að ríkið framleiðir um 181 þúsund tunnur af hráolíu á dag eru rúmlega tvær milljónir íbúa landsins mjög fátækir. Árið 2020 voru nærri því fjörutíu prósent íbúa landsins frá fimmtán til 24 ára án atvinnu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×