Sport

„Ætlum að slá áhorfendametið eins og við gerðum með stelpunum“

Andri Már Eggertsson skrifar
Þórður Ingason var markmaður Víkings í kvöld
Þórður Ingason var markmaður Víkings í kvöld Vísir/Hulda Margrét

Þórður Ingason, markmaður Víkings, var ánægður með að vera kominn í úrslit Mjólkurbikarsins fjórða skiptið í röð eftir 4-1 sigur gegn KR.

„Það er geggjað að vera kominn í þennan úrslitaleik enn og aftur. Við áttum það skilið þar sem við vorum betri í leiknum,“ sagði Þórður Ingason eftir leik.

Þórður var ánægður með hvernig hans lið fylgdi fyrsta markinu eftir með því að bæta við öðru tveimur mínútum seinna. 

„Liðið er á frábærum stað og við getum haft leikina rólega og síðan allt í einu fáum við eina sókn og skorum. Það er erfitt að lenda undir á móti okkur og ég held að það hafi gert gæfumuninn.“

KR minnkaði muninn og fékk færi til þess að jafna en Þórður var ánægður með hvernig Víkingar héldu haus og bættu síðan við tveimur mörkum.

„Þeir komu grimmari inn í seinni hálfleikinn fannst mér. Þetta var ekkert sérstakt hjá okkur í upphafi síðari hálfleiks. En síðan komust við í 3-1 og þá var þetta orðið mjög þægilegt og gott.“

Þórður var spenntur fyrir úrslitaleiknum þar sem Víkingur mætir KA á Laugardalsvelli.

„Það verður geggjað að mæta þeim og þetta verður örugglega góður leikur. Við ætlum að slá áhorfendametið eins og við gerðum með stelpunum og reynum að lyfta þessum bikar einu sinni enn,“ sagði Þórður Ingason að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×