Lífið

Friends-leikari látinn

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Paxton Whitehead lék Mr. Waltham, yfirmann Rachel, í tveimur þáttum af Friends.
Paxton Whitehead lék Mr. Waltham, yfirmann Rachel, í tveimur þáttum af Friends. Skjáskot/Youtube

Breski leikarinn Paxton Whitehead, þekktastur fyrir leik sinn í sjónvarpsþáttunum Friends, er látinn, 85 ára að aldri.

Whitehead lést á spítala í Arlington í Virgíníu-ríki þann 16. júlí síðastliðinn. Sonur hans, Charles Whitehead, greindi frá fréttunum.

Broadway leikari frá Kent

Paxton fæddist í East Malling og Larkfield í Kent í Bretlandi þann 17. október 1937. 

Þegar hann var sautján ára hóf hann leiklistarnám í Lundúnum. Næstu árin lék hann á sviði með ferðaleikhóp sem sýndu nýtt verk í hverri viku og árið 1958 var hann ráðinn til The Royal Shakespeare Company, eins virtasta leikfélags Bretlands.

Á sjöunda áratugnum festi hann sig í sessi sem sviðsleikari og lék í og leikstýrði fjölda uppsetninga á Broadway næstu áratugina.

Költ-hetjan Mr. Waltham

Whitehead er hins vegar betur þekktur fyrir leik sinn í sjónvarpi en sjónvarpsferill hans teygði sig yfir rúma hálfa öld þó hann hafi sjaldan verið í stórum hlutverkum. 

Á tíunda áratugnum lék hann í fjölda bandarískra grínþátta, þar á meðal Frasier, Ellen, Caroline in the City, The Drew Carey Show, Mad About You og 3rd Rock From the Sun. Yfirleitt lék hann ekki meira en einn til tvo þætti í hverri seríu.

Þekktastur var Whitehead fyrir leik sinn í gamanþáttunum Friends. Þar lék hann Mr. Waltham, yfirmann Rachel Green hjá versluninni Bloomingdales í tveimur þáttum í fjórðu seríu.

Hér má sjá vinsælt atriði með Mr. Waltham úr Friends:






Fleiri fréttir

Sjá meira


×