Innlent

Land heldur á­fram að rísa í Öskju

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Askja í forgrunni. Fjær sjást Herðubreið og Herðubreiðartögl og lengst til hægri sést í Upptyppinga.
Askja í forgrunni. Fjær sjást Herðubreið og Herðubreiðartögl og lengst til hægri sést í Upptyppinga. Mynd/Stöð 2

Land­ris heldur á­fram í Öskju á stöðugum hraða líkt og verið hefur síðan í lok septem­ber árið 2021. Þetta sýna nýjustu af­lögunar­mælingar Veður­stofu Ís­lands en engar vís­bendingar eru um aukna virkni um­fram það.

Á vef Veður­stofunnar kemur fram að land­ris í Ólafs­gígum, rétt vestan Öskju­vatns, nemur nú um 60 sentí­metrum síðan það hófst í ágúst 2021. Sam­kvæmt líkan­reikningum eru upp­tök af­lögunarinnar á um 2,5 til 2,9 kíló­metra dýpi undir Öskju og hefur stað­setningin verið ó­breytt síðan í septem­ber fyrir tveimur árum síðan.

Frá lokum 2021 til miðjan júní 2023 hafa á bilinu 20 – 60 skjálftar, yfir 0,5 að stærð, mælst í Öskju í hverjum mánuði og skjálfta­virkni verið frekar stöðug, að því er fram kemur á vef Veður­stofu.

Stærstu skjálftar hvers mánaðar hafa verið frá tæp­lega 2 að stærð upp í 3,1. Þegar land­ris var hraðast í septem­ber 2021 mældust nærri 150 jarð­skjálftar í mánuði.

Að sögn Veður­stofu er Askja vöktuð með jarð­skjálfta- og GPS mælingum á­samt gögnum úr gervi­tunglum. Á gervi­tungla­myndum sést að síðan í lok maí hefur yfir­borð Öskju­vatns verið ís­laust eins og önnur vötn á svæðinu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×