Þóra Jónasdóttir dýralæknir hjá Matvælastofnun segir í samtali við fréttastofu að lögregla reyni að takmarka ferðir fólks að dýrinu. Þar sé öryggi fólks í fyrirrúmi.
„Rostungar geta ferðast hratt ef þeim finnst þeim ógnað og geta ráðist að fóli. Notað höggtennur ef þeir telja sig þurfa að verja sig. Geta einnig borið smitsjúkdóma. Með tilliti til velferðar dýrsins er vont að stressa það í hvíld,“ segir Þóra.
Lögregla ætli að skoða aðstæður og leiðbeina fólki um að vera ekki of nálægt dýrinu. Starfsmaður Hafrannsóknarstofnunar og dýralæknir hjá Matvælastofnun eru á leið á vettvang að meta ástand dýrsins.
„Við ætlum að reyna að skoða núna þessar myndir af sárum og ætlum að fara þangað að meta aðstæður,“ segir Þóra. Það sé á ábyrgð sveitarfélagsins að bregðast við.
Fylgjast má með streymi úr fjörunni á Stöð 2 Vísi, hér að neðan.
Jón Sólmundsson fiskifræðingur lýsti því í samtali við Vísi í morgun þar sem hann hjólaði úr Norðurbænum í Hafnarfirði niður hjá Hrafnistu að Herjólfsgötu og sá hann syndandi í flæðarmálinu.
„Síðan hjólaði ég og hann synti þarna við hliðina á mér alveg inn í höfnina að Fjörukránni. Hann kafaði öðru hverju ofan í sjóinn og svo kom hann upp í Hafnargarðinn.“
„Hann var líka forvitinn, það var svolítið af fólki sem stoppaði til að horfa á hann og hann virtist vera að spá í það líka,“ sagði Jón um forvitinn rostunginn.
„Svo fór ég í vinnunni og hann synti út í fjörðinn aftur.“
Hvert vissi Jón eðlilega ekki en ekki löngu síðar var hann kominn upp í fjöru hjá nágrönnum Hafnfirðinga á Álftanesi.
